Innlent

Efling skammar Hard Rock vegna „óþægilegra og ósmekklegra“ kjóla á konurnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stefán Magnússon er framkvæmdastjóri Hard Rock á Íslandi.
Stefán Magnússon er framkvæmdastjóri Hard Rock á Íslandi. Vísir/Anton Brink
Efling-stéttarfélag hefur sent Hard Rock í Lækjargötu bréf þar sem þess er krafist að látið verði tafarlaust af fyrirmælum um klæðaburð kvenna sem vinna á veitingastaðnum. Bréfið sendir Efling í kjölfar þess að kvartanir bárust frá félagsmönnum vegna kröfu um að konurnar klæðist kjólum í stað skyrtna og buxna.

Stefán Magnússon, framkvæmdastjóri Hard Rock á Íslandi, sagði í samtali við DV í gær að um væri að ræða staðla frá Hard Rock á heimsvísu. Hann hefði fengið í gegn undanþágu um að konurnar mættu klæðast buxum eða sokkabuxum undir kjólnum vegna þess hve kalt væri hér á landi.

Leifur Gunnarsson, lögfræðingur á kjaramálasviði Eflingar, segir konurnar ósáttar. Þær vilji margar hverjar klæðast áfram skyrtum og buxum á vinnutíma líkt og karlarnir. Þá hafi kjólarnir verið bæði óþægilegir og ósmekklegir að því er segir í frétt á vef Eflingar.

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasamband Íslands.Vísir/GVA

Steinaldarhugsunarháttur

Leifur segir að í bréfi sínu til Hard Rock sé áréttað að gæta skuli jafnræðis milli kynja á vinnumarkaði og að fyrirætlanirnar samræmist ekki jafnréttissjónarmiðum. Starfsmenn skuli njóta virðingar í starfi sínu og eðlilegt er að taka tillit til óska þeirra og athugasemda varðandi einkennisklæðnað á vinnustað.

Það eigi ávallt að vera undir starfsfólkinu sjálfu komið hvort það ákveði að klæðast skyrtu og buxum, eins og allir starfsmenn hafa gert hingað til, eða kjólum.

Framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins fagnar viðbrögðum Eflingar í færslu á Facebook.

„Gott hjá Eflingu að ganga í þetta mál. Óþolandi þegar svona steinaldarhugsunarháttur fær að vaða uppi og í hrópandi andstöðu við allt tal um jafnrétti og virðingu,“ segir Drífa Snædal.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×