Viðskipti innlent

65 milljarða yfirtaka í pípunum þvert á vilja stærsta hluthafans

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims. Brim
Útgerðarfélaginu Brimi ber lagaleg skylda til yfirtökutilboðs í HB Granda, eftir að félagið keypti 34,1% eignarhlut Kristjáns Loftssonar og Halldórs Teitssonar í HB granda í viðskiptum upp á tæplega 21,7 milljarða króna á miðvikudag.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri og eigandi Brims, segist vonast til þess að sem flestir hluthafar verði áfram í HB Granda. Lög um verðbréfaviðskipti kveða skýrt á um að hafi hluthafi samanlagt eignast að minnsta kosti 30 pró- sent atkvæðisréttar í félagi sem skráð er í Kauphöll skuli sá hinn sami gera öðrum hluthöfum félagsins yfirtökutilboð.

Það er, tilboð um að kaupa hluti þeirra í félaginu. Fjármálaeftirlitið hefur málið til skoðunar. Guðmundur segist ekki vilja að Brim taki HB Granda yfir. „Við þurfum að gera yfirtökutilboð innan fjögurra vikna, en við höfum hug á að halda HB Granda á markaði.“

„Okkur langar ekki til að gera þetta tilboð, en það er skylda. Okkar von er að núverandi hluthafar verði áfram í félaginu.“
Aðspurður segist Guðmundur ekki hafa klárað fjármögnunina alla, en geta selt hluta af eignum Brims til að tryggja fjármagn ef til yfirtöku kemur. „Maður má ekki bara kaupa og borga ekki upp.“ Brim skuldaði um 32 milljarða samkvæmt ársreikningi 2016, en eigið fé var um 22 milljarðar.

Ársreikningur ársins 2017 hefur ekki verið birtur. Samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti skal verð það sem sett er fram í yfirtökutilboði vera að lágmarki jafnhátt og síðasta viðskiptaverð hluta í viðkomandi félagi áður en tilboðsskylda myndaðist. Kaupverðið yrði því um 65 milljarðar, miðað við að kaupverðið sé 35 krónur á hvern hlut líkt og í viðskiptum með bréf félagsins í vikunni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×