Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - FH 34-36 │Selfoss leiðir eftir framlengdan spennutrylli

Gabríel Sighvatsson skrifar
Teitur Örn Einarsson.
Teitur Örn Einarsson. vísir/eyþór
Selfoss og FH mættust í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildar karla.

Þarna voru liðin sem enduðu í 2. og 3. sæti að mætast og úr varð hörkuleikur þar sem þurfti framlengingu til að fá fram sigurvegara.

Jafnræði var með liðunum allan fyrri hálfleikinn en FH náði þriggja marka forystu á síðustu 5 mínútunum og leiddu í hálfleik.

Gestirnir héldu fókus í seinni hálfleik og juku forskotið en á síðustu 10 mínútunum breyttist allt, Selfoss náði að koma til baka og jafna leikinn.

Í framlengingu hafði Selfoss meiri orku og unnu að lokum sigur, 36-34.

Hvers vegna vann Selfoss?

Bæði lið áttu mjög góðan leik en krafturinn og baráttan var meiri í heimamönnum undir lokin. Þeir fengu byr undir báða vængi, komu til baka og jöfnuðu.

Heimavöllurinn er frábær hjá Selfoss og þeir fengu hjálp frá frábærum stuðningsmönnum sínum til að klára þetta í framlengingu.

Hvað gekk illa?

Halda út. Í fyrri hálfleik náði Selfoss ekki að halda út og lentu undir. Það sam gerðist fyrir FH í þeim seinni.

Annars vantaði líka upp á markvörslu hjá báðum liðum þar sem mikið var verið að rótera markmönnum. Góður markmaður í dag hefði skipt sköpum.

Hverjir stóðu upp úr?

Einar Sverrisson var stórkostlegur fyrir Selfoss, skoraði 11 mörk og var drjúgur þegar leið á leikinn. Atli Ævar og Haukur Þrastar fylgdu á eftir með 6 mörk hvor.

Hjá gestunum var Óðinn Þór Ríkharðsson markahæstur með 11 mörk. Frábær í horninu og í hraðaupphlaupum. Ásbjörn Friðriksson var næstu með 8 mörk.

Hvað gerist næst?

Liðin mætast aftur á laugardaginn í Kaplakrika.

Patrekur: Erum í afreksíþróttum

„Úff, úrslitakeppnin, undanúrslitin. FH-ingarnir bjóða upp á hörkuleik, þetta var jafnt framan af en síðan voru þeir skrefinu á undan. Við lentum fimm mörkum undir en við gáfumst ekki upp og ég er ánægður með að koma til baka. Við förum í framliggjandi vörn og verjum nokkra bolta og við höfðum alltaf trú á okkur,” sagði Patrekur í leikslok.

Selfoss var undir mest allan seinni hálfleikinn og þá leit það út fyrir að þetta myndi ekki falla með þeim en annað kom á daginn.

„Við höldum alltaf áfram, ef við töpum þá töpum við eins og menn en við unnum í dag og gleðjumst yfir þessum sigri. Þetta var gott hjá strákunum og hrós á þá en það er margt sem ég sé strax að við getum lagað.“

„Þetta er fyrsta tímabilið mitt á Selfossi og ég vissi alveg að maður gæti tapað á móti góðu liði eins og FH en ég hafði aldrei áhyggjur af að mínir leikmenn myndu fjara út. Ég var alveg óhræddur við að fara í framlengingu, við náum bestu mínútunum okkar í lok leikja.“

Patti var ánægður með sigurinn en gefur ekki mikið fyrir að hafa unnið fyrsta leikinn.

„Ég hef upplifað margt í þessu, það er alltaf gott að vinna en við þurfum að vinna þrjá leiki, sá næsti er á laugardaginn. Ég vona að okkar fólk komi, það hjálpar okkur mikið. Það er bara 1-0 og allt getur gerst en auðvitað er alltaf gott að vinna. Við erum í afreksíþróttum og á þessu leveli skiptir það máli að vinna leiki,” sagði Patti að lokum.

Hergeir: Mikilvægt að halda heimavellinum góðum

„Þetta var þvílíkt skemmtilegur leikur og geggjaður og mjög slæmur handbolti hjá okkur, en við náum sigrinum,” sagði Hergeir Grímsson, hornamaður Selfoss, í leikslok.

„Þetta gat fallið báðum megin. Ekki í fyrsta skipti sem við erum undir í hálfleik, við erum búnir að vera að gera þetta í allan vetur, sýnum karakter í seinni hálfleik og við erum góðir í að klára leiki.“ sagði Hergeir.

Það var troðfull stúka í Selfoss í kvöld og stuðningsmennirnir voru virkir allan leikinn.

„Það er ómetanlegt, þetta er algjört brjálæði,” sagði Hergeir um stuðningsmennina.

„Það er mjög gott að klára fyrsta leikinn og það er mikilvægt að halda heimavellinum góðum.“

Halldór: Á þetta ekki að vera svona?

„Þetta var frábær leikur fyrir áhorfendur, fullt hús. Gríðarlega skemmtilegt en auðvitað súrt að ná ekki að landa þessu, vorum með leikinn í höndunum og gátum klárað leikinn í síðustu sókninni.“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, í samtali við Vísi.

Gísli Þorgeir Kristjánsson fékk rautt spjald í fyrri hálfleik og það hafði áhrif á FH.

„Það er dýrt að miss Gísla út úr leiknum og að enda í svona löngum leik. Við erum rétt að fá menn út úr meiðslum, Ísak gat bara spilað vörn, Jóhann Birgir búinn að vera meiddur og Ágúst Birgir enn smá meiddur og vonandi getum við notað þá eitthvað í þessu einvígi og hópurinn þynnist þannig og þetta verður erfiðara þegar komið er svona langt inn í leikinn. Mér finnst við samt gefa alltof mikið eftir.“

Halldóri fannst dómgæslan í heild ekki vera nógu góð heldur.

„Allt í einu kom þessi lína núna, ég skil það ekki. Hvað væri hægt að gefa mörg svona rauð spjöld í vetur, ég átta mig ekki alveg á því. Hvað þá með þegar Jóhann Birgir er hamraður í seinni hálfleik í framlengingunni? Við fáum eitt víti og þeir fá 7-8 víti.“

„Þeir spila mjög framarlega og það er margt í þessu sem ég þarf að skoða. Mér fannst litlir hlutir vera vafasamir í kvöld. Það er verið að fara í hliðina og menn eru að taka skot og menn fá ekki neitt. Það dregur svolítið úr manni tennurnar þegar dregur á leikinn og mér fannst halla svolítið á vítadómana, ég verð að viðurkenna það.“

„Jóhann Birgir kemur og hann er góður handboltamaður, kemur inn og þekkir system-ið okkar og gerir þetta mjög vel. Maður kemur í manns stað en þegar fer að líða á leikinn, þá hefði verið voða gott að hafa Gísla en mér fannst við gefa alltof mikið eftir varnarlega.“

Það var hart barist eins og við var að búast og ætla FH-ingar að gera betur í næsta leik.

„Á þetta ekki að vera svona? Þú ert kominn í undanúrslit í Íslandsmóti, þetta á að vera það skemmtilegasta sem þú gerir þannig að auðvitað á þetta að vera svona. Þetta eru tvö frábær lið, við mætum Selfossi aftur á laugardag og við þurfum að spila frábæran leik heima til að vinna þá og það er það verkefni sem skiptir mestu máli og við sjáum ekkert lengra en það,“ sagði Halldór Jóhann að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira