Innlent

Vill hraðamyndavélar við alla grunn- og leikskóla

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Sigurgeir Ingi Þorkelsson Eyvinds skrifar
Auknar kröfur og snjallsímabann í grunnskólum, flugvöllurinn í Vatnsmýri og hraðamyndavélar í nágrenni skóla, er meðal þess sem framboðið Borgin okkar - Reykjavík ætlar að leggja áherslu á í komandi sveitastjórnarkosningum. Oddviti flokksins telur raunhæft að ná tveimur til þremur mönnum inn.

Það er Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sem leiðir listann, en hún kynnti helstu stefnumál framboðsins á heimili sínu í dag. Annað sæti listans vermir Edith Alvarsdóttir þáttagerðarmaður og Jóhannes Ómar Sigurðsson er í því þriðja.

Það er einkum þrennt sem framboðið hyggst leggja áherslu á og vega menntamálin hvað þyngst að sögn Sveinbjargar en hún vill að gerðar séu meiri kröfur til nemenda um ákveðna grunnþekkingu.

„Þar tengist inn í snjallsímabannið sem að ég hef mælt fyrir í borgarstjórn og stend algjörlega föstum fótum á. Ég vil enga farsíma í grunnskólum.“

Þá mun framboðið berjast fyrir áframhaldandi veru flugvallarins í Vatnsmýri og ráðast í átak í umferðaröryggismálum.

„Við viljum setja upp hraðaksturmyndavélar við alla grunn- og leikskóla í borginni í samráði við lögregluna.“

Sveinbjörg var borgarfulltrúi Framsóknar- og flugvallarvina en hún sagði skilið við flokkinn í fyrra. Aðspurð segir hún augljósa ástæðu fyrir því hvers vegna hún ákvað að stofna nýtt framboð.

„Ég hef unnið í minnihluta í borgarstjórn í öflugri stjórnarandstöðu og það er vinna sem ég legg til grundvallar í þessari kosningabaráttu. Hin framboðin, bæði Miðflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, eru reynslulaus.“

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×