Erlent

Fórst full af áhrifavöldum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mariah Sunshine Coogan hafði sent vinum sínum myndband skömmu fyrir flugtak.
Mariah Sunshine Coogan hafði sent vinum sínum myndband skömmu fyrir flugtak. Facebook
Allir sex farþegar lítillar einkaflugvélar létust þegar hún brotlenti skömmu eftir flugtak í Arizona á mánudag.

Vélin, sem var á leið til glysborgarinnar Las Vegas, brotlenti á golfvelli og segja vitni að mikill eldur hafi blossað upp um leið og hún hafnaði á einni flötinni. Allir um borð í vélinni voru því látnir þegar sjúkraflutningamenn komu á vettvang.

Lögreglan í Scottsdale hefur birt nöfn þeirra sem létust, nöfn sem fjöldamargir notendur myndaþjónustunnar Instagram kannast við ef marka má erlenda miðla. Um helmingur farþeganna hafði tugþúsundir fylgjenda á reikningum sínum og segir People því að um svokallaða áhrifavalda hafa verið að ræða.

Áhrifavaldar eru, eins nafnið gefur til kynna, fólk sem talið er geta haft áhrif á neyslu fylgjenda með hegðun sinni á samfélagsmiðlum og eru þeir því gríðarlega eftirsóttir til markaðssetningar.

Vinur hinna látnu minntist þeirra í færslu á Facebook síðu sinni, þar sem meðal annars má sjá myndbönd sem þau tóku um borð í vélinni skömmu fyrir flugtak.



Í fyrrnefndri grein People eru áhrifavaldarnir kynntir til sögunnar.

Hin 23 ára gamla Mariah Sunshine Coogan var til að mynda með 28 þúsund fylgjendur áður en hún lést. Hún birti reglulega myndir af sér léttklæddri við sundlaugabakkann.

Um 12 þúsund manns fylgdust með ævintýrum James Pedroza, sem var 28 ára. Hann var jafnframt flugmaður vélarinnar.

Pedroza ferðaðist mikið og er Instagram-aðgangur hans fullur af myndum úr ferðalögum.

Anand Patel, 26 ára, er lýst sem frumkvöðli sem kom til Bandaríkjanna fyrir um áratug síðan. 

Aðgangur hans er lokaður en engu að síður fylgdust um 44 þúsund manns með ævintýrum Patel.

Anand Patel var kallaður Happy af vinum sínum.Facebook
Rannsókn á slysinu stendur nú yfir en margir telja að vélin hafi ekki verið hönnuð til þess að flytja sex manns í einu.

Bráðabirgðaskýrslu er að vænta eftir um tvær vikur.

Myndband People um málið má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×