Erlent

Rússneskir þingmenn íhuga viðskiptabann á Bandaríkin

Kjartan Kjartansson skrifar
Frumvarpið liggur fyrir í Dúmunni, neðri deild rússneska þingsins.
Frumvarpið liggur fyrir í Dúmunni, neðri deild rússneska þingsins. Vísir/AFP
Rússar gætu brugðist við refsiaðgerðum Bandaríkjastjórnar með því að banna innflutning á bandarískum vörum og fjárfestingum. Hópur þingmanna hefur lagt fram frumvarp þess efnis í rússneska þinginu og til stendur að taka það til umræðu í næstu viku.

Bandarískur hugbúnaður, landbúnaðarvörur, lyf, tóbak og áfengi gætu orðið fyrir barðinu á mótaðgerðum Rússa samkvæmt frumvarpinu. Þá leggja þingmennirnir til að hætta samstarfi við bandarísk stjórnvöld um kjarnorku, eldflaugar og flugvélasmíði og banna bandarískum fyrirtækjum að taka þátt í einkavæðingu rússneskra ríkisfyrirtækja.

Stirt hefur verið á milli rússneskra stjórnvalda og vestrænna ríkisstjórna af ýmsum sökum undanfarið. Þar ber helst stuðningur Rússa við ríkisstjórn Bashars al-Assad í Sýrlandi og taugaeitursárás á rússneskan fyrrverandi njósnara og dóttur hans á Bretlandi.

Við þetta bætist innlimun Rússlands á Krímskaga í Úkraínu árið 2014 og ásakanir um tilraunir þeirra til afskipta af kosningum í vestrænum ríkjum, þar á meðal Bandaríkjunum.

Frumvarpið sem liggur fyrir rússneska þinginu nú er hugsað sem andsvar við refsiaðgerðum sem Bandaríkjastjórn tilkynnti um í síðustu viku. Þær voru þær hörðustu frá Krímskagadeilunni. Ekki liggur fyrir hvort að frumvarpið nýtur stuðnings ríkisstjórnar Vladimírs Pútín forseta.

Reuters-fréttastofan segir að stjórnvöld í Kreml noti þingið stundum til að senda skilaboð til erlendra ríkja. Þau skilaboð leiði ekki alltaf til beinna aðgerða.


Tengdar fréttir

Rússar hafna niðurstöðunum alfarið

Stofnunin um bann við efnavopnum staðfesti að Novichok-taugaeitri hefði verið beitt gegn Sergei og Júlíu Skrípal. Bretar segja nú deginum ljósara að rússnesk yfirvöld hafi beitt efnavopni í Salisbury. Rússar hafna niðurstöðum rannsóknar alfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×