Enski boltinn

Segja að Pep vilji kaupa nýja menn áður en HM byrjar og að þessir séu á óskalistanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Manchester City eru ánægðir með Pep Guardiola.
Stuðningsmenn Manchester City eru ánægðir með Pep Guardiola. Vísir/Getty
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, er búinn að gera liðið sitt að enskum meisturum en spænski stjórinn er þegar byrjaður að reyna að styrkja City liðið fyrir næstu leiktíð.

Sky Sports segir að þeir Kylian Mbappe og Thiago Alcantara séu efstir á óskalista Spánverjans og að hann gæti fengið allt að 200 milljónum pundum til að eyða í nýja leikmenn í sumar.

Wilfried Zaha hjá Crystal Palace er líka á innkaupalistanum en þó ekki eins ofarlega og hinir tveir.

Guardiola vill helst klára leikmannainnkaupin fyrir 14. júní eða fyrir fyrsta leik í HM í Rússlandi. Þá er þetta fyrsta sumarið með styttri félagsskiptaglugga og því munu félögin örugglega vera fyrr á ferðinni en áður.

Guardiola þekkir vel til Thiago sem hann þjálfaði hjá bæði Barcelona og Bayern München. Pep vill yngja upp í miðjumannahóp City liðsins þar sem þeir David Silva, Fernandinho og Yaya Toure eru allir komnir á fertugsaldurinn.

Manchester City fylgist líka mjög vel náið með stöðu mála hjá Mbappe og Paris Saint Germain þar sem UEFA er að rannsaka hvort PSG hafi brotið félagsskiptareglur með öllum sínum ofurinnkaupum upp á síðkastið.

Lánsamningur Mbappe rennur út í sumar og þá gæti PSG þurft að selja hann vegna háttvísireglna um rekstur félaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×