Erlent

Ríkisstjóri segir Indverja hafa fundið upp internetið fyrir þúsundum ára

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Biplab Dep var kjörinn ríkisstjóri Tripura í síðasta mánuði.
Biplab Dep var kjörinn ríkisstjóri Tripura í síðasta mánuði. vísir/epa
Biplab Deb, ríkisstjóri í Tripura á Indlandi, hefur uppskorið bæði reiði og háð vegna þeirra ummæla sinna að internetið hafi verið fundið upp af Indverjum til forna. Máli sínu til stuðnings vísar hann til goðsagna frá því um fjögur hundruð fyrir Kristburð en þar segir frá manni sem fylgdist með orrustu í margra kílómetra fjarlægð.

Deb segir það sanna að internetið, og jafnvel gervihnettir, hafi verið í notkun á Indlandi á þeim tíma. Margir Indverjar hafa gert grín að ríkisstjóranum á samfélagsmiðlum og sagst vona að nettengingar í gamla daga hafa í það minnsta verið hraðari en þær eru á Indlandi í dag.

Stjórnarandstæðingar og fræðimenn á Indlandi segja þetta lýsa mjög alvarlegri þróun þar sem fjöldi indverskra stjórnmálamanna hafi opinberað mjög einkennilegar hugmyndir um vísindi á síðustu árum.

Stjórnarflokkurinn BJP er að stórum hluta skipaður róttækum þjóðernissinnum og bókstafstrúuðum hindúum. Formaður flokksins og forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, hefur meðal annars haldið því fram án sannana að lýtalækningar hafi verið stundaðar af Indverjum fyrir þúsundum ára. Þá hefur aðstoðar-menntamálaráðherra landsins sagt að flugvélin sé mörg þúsund ára gömul indversk uppfinning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×