Erlent

Farþeginn lést af völdum mikilla áverka

Kjartan Kjartansson skrifar
Málmþreyta er sögð hafa verið komin í blað hreyfilsins sem brotnaði svo í miðju flugi.
Málmþreyta er sögð hafa verið komin í blað hreyfilsins sem brotnaði svo í miðju flugi. Vísir/AFP
Kona sogaðist næstum því út úr bandarískri farþegaflugvél í gær lést af völdum höggáverka á höfði, háls og búk hennar, að sögn dánardómstjóra. Bandarísk flugmálayfirvöld segja að hreyfill þotunnar hafi sprungið þegar blað í honum brotnaði í miðju flugi.

Gat kom á glugga flugvélarinnar þegar brot úr hreyflinum þeyttust í hann á miklum hraða við sprenginguna. Farþegar í vélinni eru sagðir hafa þurft að grípa í konuna til þess að hún sogaðist ekki út þegar loftið í farþegarýminu streymdi út um gatið.

Að sögn AP-fréttastofunnar sogaðist konan, sem var 43 ára gömul tveggja barna móðir, með höfuðið á undan út um gatið þrátt fyrir að hún hefði verið með sætisbeltið spennt. Tveir karlmenn hafi náð að toga hana inn aftur. Annar þeirra var slökkviliðsmaður og reyndi hann og hjúkrunarfræðingur um borð að endurlífga konuna þar til vélin lenti.

Samgönguöryggisnefnd Bandaríkjanna segir að málmþreyta hafi verið komnin í blað hreyfilsins sem brotnaði. Reuters-fréttastofan segir að Robert Sumwalt, formaður nefndarinnar, hafi ekki getað fullyrt hvort að vandamálið næði til allra Boeing 737-700-flugvéla.

Banaslysið var það fyrsta í farþegaflugi í Bandaríkjunum frá árinu 2009.


Tengdar fréttir

Einn lést þegar þotuhreyfill sprakk

Fréttir hafa verið um að kona hafi næstum því sogast út úr vélinni, en ekki liggur fyrir hvort að hún sé farþeginn sem lét lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×