Innlent

Allar eignir Dýrahjálpar líklega gjöreyðilagðar eftir brunann

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Valgerður Valgeirsdóttir, formaður Dýrahjálpar Íslands.
Valgerður Valgeirsdóttir, formaður Dýrahjálpar Íslands. Vísir/GVA
Nær allar eignir Dýrahjálpar Íslands hafa verið geymdar í geymslum hjá fyrirtækinu Geymslur.is. Húsnæðið er að öllum líkindum ónýtt eftir að mikill eldur kviknaði þar á níunda tímanum í morgun. Formaður Dýrahjálpar segir nú fátt annað í stöðunni en að bíða frekari fregna.

Samtökin greindu frá tjóninu á Facebook-síðu sinni í dag en þar segir að nær allar eignir Dýrahjálpar hafi verið geymdar í geymslunum síðustu ár. Þá gera samtökin ráð fyrir að eignirnar séu allar horfnar, að því er segir í færslunni. Valgerður Valgeirsdóttir, formaður Dýrahjálpar Íslands, staðfestir þetta í samtali við Vísi.

„Við stýrum öllu starfinu í gegnum netið og erum ekki með neina skrifstofu. Við höfum haft allt okkar dót sem við þurfum til að sinna starfinu í þessum þremur geymslum inni í Garðabæ. Þetta er allt sem þarf til að sinna nýjum dýrum,“ segir Valgerður.

Sjá einnig: Dánarbú móðurinnar í eldhafi

Aðspurð segist hún ekki gera sér grein fyrir því hversu umfangsmikið tjónið kemur til með að verða. Hún er þó ekki bjartsýn á að mörgu verði bjargað.

„Við höfum ekkert heyrt. Ég veit ekki hvort eldurinn hafi breiðst út um allt þarna en fóðrið er allavega líklegast allt ónýtt vegna reyks.“

Ljóst er að fjölmargir hafa tapað eignum sínum, jafnvel heilum búslóðum, í geymsluhúsnæði Geymslna.Vísir/Rakel Ósk
Valgerður segir starfsmenn samtakanna nú vinna að því að setja saman lista af því sem er í geymslunum. Um sé að ræða fóður, búr, hvolpagrindur, matardallar, kattabæli, teppi, leikföng og örmerkjalesara svo fátt eitt sé nefnt og þetta hafi líklega allt orðið eldinum að bráð.

Þá sé einnig efst í forgangsröðinni að finna nýtt húsnæði fyrir starfsemina en talið er að húsið að Miðhrauni 4, þar sem eldurinn kom upp í morgun, sé ónýtt. Valgerður segir Dýrahjálp ekki tryggða fyrir tjóninu en samtökin vonast til þess að samfélagið taki vel í væntanlega styrktarsöfnun ef svo fari að allar eignir séu ónýtar eftir brunann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×