Erlent

Herða reglur um þungunarrof

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Baráttufólk fyrir kvenréttindum hefur gagnrýnt breytingarnar. Aðrir, sem telja að líf barn hefjist við getnað, fagna þeim.
Baráttufólk fyrir kvenréttindum hefur gagnrýnt breytingarnar. Aðrir, sem telja að líf barn hefjist við getnað, fagna þeim. Vísir/Getty
Ríkisstjóri Mississippi samþykkti í gærkvöldi breytingar á fóstureyðingalöggjöf ríkisins sem sagðar eru þær ströngustu í gervöllum Bandaríkjunum.  Gagnrýnendur breytinganna telja þær stangast á við stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Hin nýja löggjöf kveður á um bann við þungunarrofi eftir fimmtándu viku og á því eru gerðar fáar undantekningar. Konur sem verða þungaðar eftir nauðgun eða sifjaspell geta til að mynda ekki lengur farið í fóstureyðingu í Mississippi þegar meira en 15 vikur eru liðnar af meðgöngunni.

Hins vegar verður áfram hægt að rjúfa þungun að þessum tíma liðnum þegar líf móðurinnar er talið vera í hættu eða þegar fóstrið er alvarlega vanskapað.

Mississippi hafði áður leyft þungunarrof fram 20 viku meðgöngunnar. Ríkisstjórinn, Phil Bryant, tilkynnti í gær að með breytingunum vonaðist hann til að ríki sitt yrði „öruggasti staður í Bandaríkjunum fyrir ófædd börn.“

Baráttufólk fyrir kvenréttindum hefur kært nýju löggjöfina og segir að hún stangist á við hinn sögufræga Roe v. Wade-úrskurð frá árinu 1973, sem varð til þess að þungunarrof var löglegt í Bandaríkjunum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur barist fyrir breytingum á alríkislöggjöfinni sem kveður á um bann við þungunarrofi eftir 20 viku. Frumvarp sem hann lagði fram í janúar síðastliðnum var hins vegar stöðvað í öldungadeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×