Körfubolti

Sögulegur yfirburðasigur Charlotte í NBA-deildinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kemba Walker.
Kemba Walker. Getty
Charlotte Hornets vann í nótt sinn stærsta sigur í sögu félagsins er liðið rústaði Memphis Grizzlies, 140-79.

Kemba Walker skoraði 46 stig í leiknum fyrir Charlotte og setti niður tíu þriggja stiga körfur í leiknum. Þetta var í níunda sinn á ferlinum sem Walker skorar minnst 40 stig í leik. Hann nýtti enn fremur öll tíu vítaskotin sín í leiknum.

Dwight Howard spilaði ekki með Charlotte í leiknum en það kom ekki að sök. Hann tók út leikbann eftir að hafa fengið sextándu tæknivilluna sína í leik gegn Brooklyn fyrr í vikunni.



New Orleans vann LA Lakers, 128-125, þar sem Anthony Davis skoraði 33 stig fyrir Pelíkanana. Lakers var ellefu stigum yfir í fjórða leikhluta en gaf eftir á lokakafla leiksins.



Houston hafði betur gegn Detroit, 100-96, í framlengdum leik þar sem James Harden skoraði 21 stig. Þar af skoraði hann tíu af tólf stigum Houston í framlengingunni.

Harden hafði verið ískaldur í venjulegum leiktíma og nýtti aðeins tvö af sextán skotum sínum. Hann klikkaði líka á skotinu í lok fjórða leikhluta sem hefði getað tryggt Houston sigurinn.

Úrslit næturinnar:

Charlotte - Memphis 140-79

Orlando - Philadelphia 98-118

Houston - Detroit 100-96

New Orleans - LA Lakers 128-125

Dallas - Utah 112-119

Sacramento - Atlanta 105-90

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×