Viðskipti erlent

Elsti vopnaframleiðandi Bandaríkjanna í kröggum

Samúel Karl Ólason skrifar
Remington hefur verið starfrækt í 202 ár.
Remington hefur verið starfrækt í 202 ár. Vísir/Getty

Remington Outdoor Co Inc., elsti og einn stærsti skotvopnaframleiðandi Bandaríkjanna, hefur sótt um greiðsluskjól vegna hárra skulda. Forsvarsmenn fyrirtækisins munu reyna að semja við lánadrottna sína og halda fyrirtækinu þannig starfandi. Samkvæmt AP fréttaveitunni hefur dregið úr sölu fyrirtækisins á undanförnum árum og sömuleiðis hafa málaferli vegna Sandy Hook fjöldamorðsins kostað fyrirtækið verulega.

Í febrúar hafði Remington, sem hefur verið starfrækt í 202 ár, gert samkomulag við lánadrottna um að lækka skuldir fyrirtækisins um 700 milljónir dala og auka eigið fé fyrirtækisins um 145 milljónir. Það virðist þó hafa dugað skammt.

Tekjur fyrirtækisins vegna sölu skotvopna árið 2017 lækkuðu um þriðjung miðað við árið 2016.

Samkvæmt heimildum Reuters munu núverandi eigendur Remington, Cerberus Capital Management LP, missa stjórn á fyrirtækinu og stærstu lánadrottnar þess, Franklin Templeton Investments og JPMorgan Asset Management, taka við stjórnartaumunum.

Cerberus hafði reynt að selja Remington eftir að Bushmaster riffill frá fyrirtækinu hafði verið notaður til að myrða 20 börn og sex fullorna í skóla í Sandy Hook árið 2012, en án árangurs. Fjölskyldur fórnarlambanna hafa staðið í langvarandi málaferlum við fyrirtækið síðan.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×