Viðskipti innlent

600 milljóna króna gjaldþrot Arkar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kraninn í Hafnarstrætinu um klukkan korter í tólf í morgun.
Kraninn í Hafnarstrætinu um klukkan korter í tólf í morgun. Vísir/BS
Ekkert fékkst greitt upp í 587 milljóna króna gjaldþrot R 18 ehf., áður þekkt sem Örk byggingafélag ehf. Félagið var úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjaness þann 16. mars og Logi Egilsson skipaður skiptastjóri í búinu. Frá þessu er greint í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu í dag.

Kröfur í þrotabúið námu 587 milljónum króna. Þar af voru forgangskröfur tæplega 17 milljónir króna. Ekkert fékkst greitt upp í almennar kröfur og lauk skipptum innan við viku eftir úrskurð um gjaldþrot.

Byggingafélagið Örk komst í fréttirnar í september 2016 þegar heljarinnar krani í miðbæ Reykjavíkur féll til jarðar við Bæjarins bestu í Tryggvagötu. Örk hafði kranann á leigu hjá Þarfaþingi. Tvær ungar stúlkur sluppu með skrekkinn og ræddu upplifunina við fréttastofu.

Málið kom bæði til rannsóknar lögreglu og vinnueftirlitsins en grunur lék á að átt hefði verið við kranann til þess að gera honum kleyft að lyfta þyngra hlassi en leyfi væri fyrir. Framkvæmdastjór Þarfaþings gagnrýndi ummæli forstjóra Vinnueftirlitsins harðlega í kjölfarið.

Á Facebook-síðu Arkar byggingafélags, sem hefur verið óvirk undanfarin þrjú ár, má sjá að fyrirtækið kom meðal annars að uppslætti höfuðstöðva Alvogen í Vatnsmýrinni. Fyrirtækið hefði á að skipa reyndum smiðum og húsasmíðameisturum. Það tæki að sér hvers kyns viðhald húsnæðis, sem og nýbyggingar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×