Fótbolti

Helgi Kolviðs: Svör og nýjar spurningar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Helgi Kolviðsson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, segir að ástæða þess að hann og Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, hafi valið svo stóran hóp fyrir Bandaríkjaferðina hafi verið til að sjá og meta stöðuna á mönnum fyrir HM.

Ísland spilar við Perú í New York í kvöld en leikurinn hefst á miðnætti að íslenskum tíma. Vel verður fylgst með leiknum á Vísi í kvöld og nótt.

„Þeir eru vel skipulagðir með ofboðslegan hraða í skyndisóknum og mjög ólíkt Mexíkó sem settu okkur mikið undir pressu,” sagði Helgi í samtali við Guðmund Benediktsson og Garðar Örn Arnarson sem eru staddir í New York fyrir hönd Sýn.

„Perú eiga það til að detta niður og gætu gefið okkur svæði. Þetta gæti orðið öðruvísi leikur en svipað og við vorum búnir að leggja upp fyrir Mexíkó. Við þurfum að klára okkar sóknir því ef þeir vinna boltann þá eru þeir ofboðslega fljótir fram.”

„Þeir eru hættulegir í skyndisóknum og það eru hlutirnir sem við viljum ekki sjá,” en hvernig hyggst þjálfarateymið leggja þann annan æfingarleik á nokkrum dögum upp?

„Svipað og við byrjuðum gegn Mexíkó. Við ætlum að halda okkar skipulagi og okkar rútínu. Það eru ákveðnir hlutir í leik Perú sem við viljum nýta okkur og við gefum það ekki upp núna.”

29 manna hópur fór með Íslandi til Bandaríkjanna en einhverjir eru farnir heim á leið vegna meiðsla og aðrir í verkefni með U21 ára landsliðinu. Helgi segir að það séu alltaf svör og ef til vill einhverjar nýjar spurningar einnig.

„Við erum með stráka sem við viljum sjá í ákveðnum stöðum. Það tilheyrir þessu verkefni. Það eru alltaf svör og nýjar spurningar. Þess vegna völdum við 30 manna hóp,” sagði Helgi og bætti við að lokum:

„Því miður gátu ekki allir verið með eins og við vildum, svo við sáum ekki allt sem við vildum sjá. Þetta er okkar verkefni næstu tvo mánuði að vinna úr þessu verkefni og fylgjast með strákunum þangað til að við veljum 23 manna hóp.”

Innslagið má sjá í sjónvarpsglugganum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×