Umfjöllun: Ísland - Perú 1-3 | Fátt um svör í síðasta leiknum fyrir HM-valið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Birkir Bjarnason og Ólafur Ingi Skúlason í baráttunni í kvöld.
Birkir Bjarnason og Ólafur Ingi Skúlason í baráttunni í kvöld. Vísir/sigurjón
Slakur síðari hálfleikur varð íslenska landsliðinu að falli í 3-1 tapi gegn Perú í vináttulandsleik liðanna í New Jersey í kvöld. Leikmennirnir hafa nú ekki fleiri landsliðstækifæri til þess að sýna sig og sanna fyrir HM.

Þetta var annar leikur liðsins í Bandaríkjunum en þetta var síðasti æfingarleikurinn áður en hópurinn verður valinn fyrir heimsmeistaramótið. Í júní spilar liðið svo tvo æfingarleiki á Laugardalsvelli, gegn Noregi og Gana, áður en haldið verður til Rússlands.

Sjö breytingar voru gerðir á byrjunarliðinu en einungis Ari Freyr Skúlason, Birkir Bjarnason, Jóhann Berg Guðmundsson og Björn Bergmann Sigurðarson byrjuðu báða leikina í ferðinni. Varamannabekkur kvöldsins var mun fámennari enda búið að kvarnast verulega úr hópnum eftir leikinn gegn Mexíkó.

Það byrjaði ekki vel fyrir Ísland. Eftir rúmlega mínútu komst Perú yfir en eftir aukaspyrnu barst boltinn beint á kollinn á Renato Tapia sem skallaði boltann í netið framhjá Frederik Schram sem kom engum vörnum við.

Ísland var í vandræðum framan af en náði hægt og rólega að koma sér inn í leikinn. Okkar menn voru hættulegir í föstum leikatriðum, einu sinni sem oftar, og ógnaði einnig eftir fyrirgjafir.

Jón Guðni Fjóluson jafnaði svo metin á 22. mínútu eftir hornspyrnu Birkis Bjarnasonar en bæði mörkin í fyrri hálfleik komu því eftir föst leikatriði. Þetta var fyrsta landsliðsmark Jóns Guðna en spyrnan var afar góð frá Birki sem og skallinn frá Jóni.

Eftir það hélt Ísland áfram að bæta leik sinn en Perú voru hættulegir þegar þeir komust inn í teig okkar og Jefferson Farfan gerði sig meðal annars líklegan í tvígang. Besta færið fékk þó Björn Bergmann eftir frábæra sendingu Ara Freys en skallaði boltann yfir. 1-1 í hálfleik.

Leikmenn Íslands fagna jöfnunarmarki Jóns Guðna.vísir/sigurjón
Ísland breytti sínu liði ekkert í hálfleik og síðari hálfleikurinn fór rólega af stað. Þegar Ísland beitti löngum boltum fram þá lenti Perú í nokkrum vandræðum því þeir réðu einfaldlega lítið sem ekkert við Björn Bergmann og Kjartan Henry sem eru báðir nautsterkir og létu vel finna fyrir sér.

Eftir tæplega klukkutíma komst Perú svo aftur yfir, nú með marki frá Raul Ruidíaz en eftir fyrirgjöf barst boltinn til hans eftir darraðadans í teignum. Boltinn lak að endingu inn. Nokkrum mínútur áður hafði íslenska liðið misst taktinn og því kom markið ekki á óvart.

Leikurinn datt mjög mikið niður eftir annað mark Perú. Allur hraði datt úr leiknum og Perú hélt boltanum á meðan Ísland reyndi að ná í skottið á þeim. Þegar Ísland vann svo boltann gekk liðinu illa að byggja upp spil og komst Ísland lítið sem ekkert áfram. Það endaði með því að Ísland þurfti að sparka boltanum langt fram og missti þannig boltann. Þannig gekk það aftur og aftur.

Það kom því lítið sem ekkert á óvart að Perú hafði aukið við forystuna sína stundarfjórðungi fyrir leikslok en Perú var mikið sterkari aðilinn í síðari hálfleik. Jefferson Farfan, ein skærasta stjarna Perú, skoraði þá þriðja mark Perú en boltinn hafði viðkomu í Jóni Guðna og þaðan endaði hann í netinu. Nokkuð óhuggulegt mark en það telur víst jafn mikið og hin.

Algjörlega slökkt á íslenska liðinu og lokatölur 3-1. Slakur síðari hálfleikur eftir ágætis fyrri hálfleik þar sem íslenska liðið hefði í besta falli geta verið yfir eftir gott færi alveg undir lok hálfleiksins. Síðari hálfleikurinn þó mikil vonbrigði.

Jóhann Berg var einn sprækasti maður Íslands í kvöld.vísir/sigurjón
Frederik Schram átti fínan leik í markinu. Hann gat lítið sem ekkert gert í mörkum Perú og var vel á verði í markinu þegar Perú reyndi að stinga boltanum inn fyrir vörnina. Hann komst ágætlega frá sínu og ljóst er að það verður erfitt fyrir þjálfarateymið að velja markverðina sem fara til Rússlands í sumar.

Ragnar og Jón Guðni lentu í örlitlum vandræðum af og til í varnarleiknum enda ekki vanir að spila saman. Það sama má segja um Ara Frey og Hjört í bakvarðarstöðunum varnarlega en Ari Freyr átti rispur sóknarlega. Það er ljóst að Birkir Már getur verið nokkuð öruggur með sitt sæti í hægri bakverðinum þrátt að spila að öllum líkindum á Íslandi fram að HM en enginn er líklegur til að ógna stöðu hans eftir þessa leiki.

Jóhann Berg er einfaldlega bara Jóhann Berg. Hann er að sýna snilli sína í hverri viku í ensku úrvalsdeildinni og átti góða spretti í kvöld er hann fékk boltann á góðum stöðum, sérstaklega í fyrri hálfleik. Verði hann í þessu stuði í sumar er Ísland í góðum málum. Hann haltraði hins vegar útaf í leiknum. Það væri skelfilegt sé það alvarlegt.

Kjartan Henry og Björn Bergmann voru duglegir í fremstu víglínu og náðu að valda usla í þau skipti sem þeir fengu boltann í fyrri hálfleik en Ísland fékk lítið boltann í síðari hálfleik. Rúrik var duglegur en komst lítið í takt sóknarlega og Ólafur Ingi skilaði sínu varnarlega. Birkir var öflugur í föstu leikatriðunum og barðist sem fyrr. Varamennirnir komust lítið í takt við leikinn.

Það er erfitt að segja hvort þjálfararnir hafi fengið fleiri svör eða spurningar í þessari ferð en hópurinn sem verður valinn til þess að keppa fyrir Íslands hönd í Rússlandi í sumar verður tilkynntur 11. maí. Það verða líklega margir leikmenn með hnút í maganum fram að því en liðið mætir Noregi og Gana í Laugardalnum áður en þeir fara út.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira