Erlent

Brosnan segir svindlað á sér

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Eins og sjá má í auglýsingunni tekur Pan bahar fram að ekkert tóbak sé að finna í vörunni. Það er þó ekki alveg sannleikanum samkvæmt.
Eins og sjá má í auglýsingunni tekur Pan bahar fram að ekkert tóbak sé að finna í vörunni. Það er þó ekki alveg sannleikanum samkvæmt.
Leikarinn Pierce Brosnan hefur tjáð indverskum stjórnvöldum að honum finnst sem fyrirtæki, sem fékk hann til að auglýsa vöruna sína þar í landi, hafi svindlað á sér. Brosnan hefur verið beðinn að útskýra aðkomu sína að auglýsingum fyrirtækisins Pan Bahar en í vörum þess má finna tóbak. Allar tóbaksauglýsingar eru stranglega bannaðar á Indlandi.

Varan sem Brosnan auglýsti er það sem kallað er Paan Masala. Um er að ræða blöndu af hinum ýmsu kryddum, alla jafna í litlum pokum, og er hún sögð njóta töluverðra vinsælda í Asíu. Paan Masala er alla jafna tuggið eftir máltíðir til að fríska upp á munninn og hefur henni á Vesturlöndum því stundum verið líkt við tyggjó, þó það sé skyldara tyggitóbaki.

Í bréfi sem Brosnan sendi til indverskra stjórnvalda segir hann að fyrirtækið sem réð hann til verksins, Ashok & Co, hafi ekki tjáð honum að í vörunni væri að finna tóbak. Þvert á móti hafi fyrirtækið í samtali við sig ítrekað að ekkert tóbak væri í vörunni og að það væri jafnvel undirstrikað í auglýsingunum sjálfum, eins og sjá má hér að ofan.

Leikarinn hefur mátt sæta töluverðri gagnrýni á Indlandi allt frá því að fyrsta auglýsingin fyrir Pan Bahar birtist þar í landi árið 2016. Fjölmargir Indverjar botnuðu ekkert í því að þessi frægi leikari væri að auglýsa vöru sem talin er geta valdið krabbameini í munnholi.

Brosnan hefur síðan þá ítrekað fordæmt fyrirtækið og vöru þess. Samstarfi þeirra hafi jafnframt verið rift og segist leikarinn ætla að beita sér gegn sambærilegum auglýsingaherferðum í framtíðinni.

Þrátt fyrir mótmæli leikarans birtast auglýsingar Pan Bahar, þar sem hann er í aðalhlutverki, reglulega í indverskum miðlun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×