Fótbolti

Iniesta tekur rauðvínsflöskutilboð Kínverja alvarlega

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Iniesta í leiknum gegn Chelsea í gær.
Iniesta í leiknum gegn Chelsea í gær. vísir/getty
Hinn magnaði miðjumaður Barcelona, Andres Iniesta, hefur viðurkennt að hann sé alvarlega að íhuga að færa sig yfir í kínverska boltann næsta sumar.

Þessi 33 ára leikmaður hefur leikið með Barcelona allan sinn feril og er með lífstíðarsamning við félagið. Hann spilar þar eins lengi og hann vill.

Kínversk félög hafa verið að gera hosur sínar grænar fyrir honum og eitt félag bauðst meira að segja til þess að kaupa tvær milljón rauðvínsflöskur af fyrirtæki hans ef hann kæmi þangað.

„Ég þarf að taka ákvörðun fyrir 30. apríl. Annað hvort að vera áfram hjá Barcelona eða fara til Kína. Ég þarf að ákveða hvað sé best fyrir mig og félagið,“ sagði Iniesta.

„Ég mun taka heiðarlega ákvörðun fyrir mig og félagið. Ég segi Barcelona frá ákvörðun minni áður en þið fjölmiðlamenn fáið að vita af henni.“

Iniesta hefur átt ótrúlegan feril. Unnið Meistaradeildina fjórum sinnum, spænsku deildina átta sinnum svo var hann lykilmaður í landsliði Spánverja sem vann EM 2008 og 2012 sem og HM árið 2010.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×