Körfubolti

Menn eru að taka eftir Jóni Axel í marsfárinu | Einn af 10 bestu Evrópumönnunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson.
Jón Axel Guðmundsson. Vísir/Getty
Jón Axel Guðmundsson og félagar í köfuboltaliði Davidson háskólans verða í eldlínunni seint í kvöld þegar liðið mætir Kentucky í 64 liða úrslitum úrslitakeppni bandaríska körfuboltans.

Öll liðin í marsfárinu eru undir smásjá og fjölmargir fjölmiðlar eru að velta fyrir sér möguleikum liðanna á að upplifa eitthvað ævintýr í úrslitakeppninni í ár.

Í allri umræðunni þá eru menn að taka eftir íslenska bakverðinum Jóni Axel Guðmundssyni sem er fyrsti íslenski körfuboltamaðurinn sem tekur þátt í úrslitakeppni NCAA.

Helena Sverrisdóttir tók þátt í úrslitakeppninni kvennamegin á sínum tíma en Jón Axel er fyrsti íslenski strákurinn.

Körfuboltamiðillinn eurohoops.net hefur tekið eftir Jóni með Davidson í vetur og segir hann verða einn af tíu bestu evrópsku leikmönnunum í marsfárinu í ár.

Jón er þar nefndur til sögunnar ásamt leikmönnum frá Úkraínu, Frakklandi, Serbíu, Þýskalandi, Tyrklandi, Bosníu, Ísrael, Rússlandi og Spáni.





Jón Axel er með 13,0 stig, 6,1 frákast og 5,1 stoðsendingu að meðaltali með Davidson í vetur og blaðamaður Eurohoops segir að hann sé framtíð íslenska körfuboltans ásamt miðherjanum Tryggva Snæ Hlinasyni. Tryggvi spilar með Valencia í spænsku deildinni og í Euroleague.

„Þetta er annað árið hjá honum í NCAA og hann er augljóslega að bæta sig meira og meira. Hann skoraði 8,1 stig í leik í fyrra en nú er meðalskorið hans komið upp í 13,0 stig í leik. Hann hefur verið traustur kostur fyrir Bob McKillop þjálfara,“ segir í umfjöllunni um Jón Axel.

Blaðamaður Bob McKillop Eurohoops hrósar honum sérstaklega fyrir fráköstin sem hann er safna saman úr stöðu bakvarðar. Jón Axel er sagður elska það að keyra upp völlinn í hraðaupphlaupum eftir að hafa náð sjálfur frákastinu.

Leikur Davidson og Kentucky hefst klukkan 23.10 að íslenskum tíma. Liðið sem vinnur hann tryggir sér þátttökurétt í 32 liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×