Erlent

Gagnrýnandi Trump úr röðum repúblikana boðar mótframboð

Kjartan Kjartansson skrifar
Þegar Flake tilkynnti að hann sæktist ekki eftir endurkjöri í október sagðist hann ekki vilja vera samsekur Trump.
Þegar Flake tilkynnti að hann sæktist ekki eftir endurkjöri í október sagðist hann ekki vilja vera samsekur Trump. Vísir/AFP
Jeff Flake, öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins, sem hefur verið gagnrýninn á framferði Donalds Trump Bandaríkjaforseta, segir að flokkssystkini sín verði að stöðva Trump. Hann muni jafnvel bjóða sig fram gegn Trump fyrir forsetakosningarnar árið 2020 ef enginn annar gerir það.

Ummælin lét Flake falla á viðburði í New Hampshire-ríki í dag en þar er búist við því að forval repúblikana fyrir forsetakosningarnar árið 2020 hefjist. Hann hefur verið einn örfárra þingmanna repúblikana sem hafa gagnrýnt Trump. Líkti hann forsetanum meðal annars við Jósef Stalín, fyrrverandi leiðtoga Sovétríkjanna sálugu, í þingræðu í janúar.

„Ég vona að einhver bjóði sig fram í forvali repúblikana, einhver sem skorar forsetann á hólm. Ég held að repúblikanar vilji láta minna sig á hvað það þýðir að vera hefðbundinn, sómakær repúblikani,“ sagði Flake, að því er segir í frétt AP-fréttastofunnar.

Útilokaði hann ekki að bjóða sig fram sjálfur. Flake sagði þó við AP að hann gerði sér grein fyrir að Trump væri líklega of vinsæll hjá grasrót repúblikana til að mótframbjóðandi gæti lagt hann að velli í forvali. Almennt þykir nær ómögulegt að skáka sitjandi forseta í forvali í Bandaríkjunum.

Afhroð í þingkosningunum gæti breytt stöðunni

Ýmislegt gæti þó breyst þangað til forvalið hefst. Ef repúblikanar gjalda afhroð í þingkosningunum í nóvember gætu viðhorf þeirra til forsetans breyst. Aðeins um og undir 40% Bandaríkjamanna hafa lýst ánægju með störf Trump í skoðanakönnunum undanfarna mánuði.

Breytist stemmingin innan raða repúblikana ekki með vaxandi óvinsældum Trump útilokar Flake ekki að bjóða sig fram sem óháður frambjóðandi. 

Þrátt fyrir að Flake hafi í flestum tilfellum greitt atkvæði með Trump í þinginu hefur honum mislíkað framkoma forsetans og glannaskapur. Hann lýsti því yfir í fyrra að hann ætlaði ekki að sækjast eftir endurkjöri í Arizona í þingkosningunum í haust.

„Þetta hefur verið flokkurinn minn allt mitt líf. Ég er ekki tilbúinn að sætta mig við að þetta sé varanlegt. Við munum komast í gegnum þetta,“ sagði Flake við repúblikana í New Hampshire.


Tengdar fréttir

Líkti Trump við Stalín

Þingmaðurinn Jeff Flake sagði árásir Trump á fjölmiðla vera skömmustulegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×