Erlent

Kvaðst ekki mega svara því hvort Trump hefði hótað Stormy Daniels ofbeldi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Klámstjarnan Stormy Daniels heitir réttu nafni Stephanie Clifford.
Klámstjarnan Stormy Daniels heitir réttu nafni Stephanie Clifford. Vísir/Getty
Lögmaður klámstjörnunnar Stormy Daniels, sem segist hafa átt í ástarsambandi við Donald Trump Bandaríkjaforseta, heldur því fram að Daniels hafi verið hótað ofbeldi vegna málsins. Aðspurður sagðist hann ekki hafa leyfi til þess að svara því hvort Bandaríkjaforseti stæði að baki hótununum.

Lögmaður Daniels, Michael Avenatti, veitti sjónvarpsstöðinni MSNBC viðtal í dag. Þáttastjórnandinn, Mika Brzezinski, spurði Avenatti hvort Daniels, sem heitir réttu nafni Stephanie Clifford, hefði verið „hótað á einhvern hátt.“ Avenatti svaraði því játandi.

Sjá einnig: Stormy Daniels frjálst að ræða samband sitt við Trump

Að því búnu spurði Brzezinski hvort Daniels hefði verið hótað líkamlegu ofbeldi. „Já,“ svaraði Avenatti. Hann neitaði hins vegar að svara því hvort Bandaríkjaforseti, Donald Trump, hefði sjálfur staðið að baki einhverjum hótananna.

„Ég hef ekki leyfi til þess að ræða það,“ sagði Avenatti.

Fréttir af samkomulagi Stormy Daniels og Donalds Trump voru fyrirferðamiklar í upphafi árs en lögmaður Bandaríkjaforseta er sagður hafa greitt klámstjörnunni 130 þúsund dali, skömmu fyrir forsetakosningarnar 2016, svo hún segði ekki frá kynlífi hennar með forsetanum árið 2006. Trump og Melania Trump gengu í það heilaga árið 2005. Hvíta húsið hefur ætíð þvertekið fyrir að þetta sé satt.

Daniels kærði Trump í byrjun mars vegna þess að hún telur að hið umtalaða þagnarsamkomulag þeirra sé dautt og ómerkt. Á mánudag bauðst hún svo til þess að skila fjárhæðinni sem hún fékk greidda fyrir þagmælsku sína til þess að geta rætt samband sitt við Trump opinberlega.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×