Handbolti

Alger óvissa um Róbert Aron: Fann eitthvað smella

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Róbert Aron Hostert.
Róbert Aron Hostert. Vísir/Ernir
Róbert Aron Hostert fór meiddur af velli í leik ÍBV og Stjörnunnar í næstsíðustu umferð Olísdeildar karla í gær og er óttast að hann hafi meiðst á öxl. Hann kom ekki meira við sögu eftir af farið út af snemma í síðari hálfleik.

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, sagði að fyrsta skoðun eftir leik í gær hafi leitt í ljós að Róbert hafi ekki farið úr lið eins og óttast var í fyrstu.

„Hann lenti illa á vinstri öxlinni og fann eitthvað smella,“ sagði Arnar við Vísi í dag. „Hann þarf að fara í ómskoðun og þá kemur betur í ljós hvernig staðan er. Hann hefur hingað til alveg sloppið við axlarmeiðsli en nú er bara að bíða og sjá hvað verður.“

Það er nóg fram undan hjá ÍBV. Eyjamenn mæta Fram í lokaumferð deildarinnar á miðvikudag þar sem liðið getur tryggt sér deildarmeistaratitilinn. Þá mætir liðið SKIF Krasnodar frá Rússlandi í 8-liða úrslitum Áskorendakeppni EHF en fyrri leikurinn fer fram í Rússlandi um helgina.

„Það er alveg óvíst um þátttöku Róberts, bæði á miðvikudag og um helgina. Við verðum bara að bíða og sjá.“

Hornamaðurinn Theódór Sigurbjörnsson spilaði ekki með ÍBV í dag eftir að hafa slasast á auga í fögnuði ÍBV eftir bikarmeistaratitil liðsins fyrr í mánuðinum, líkt og fjallað hefur verið um. Arnar segir enn óvíst hvenær hann geti spilað á ný.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×