Erlent

Óvelkominn í framboð

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Falcón býður sig fram þrátt fyrir samkomulag um sniðgöngu.
Falcón býður sig fram þrátt fyrir samkomulag um sniðgöngu. Vísir/afp
Þrátt fyrir sameiginlega afstöðu stjórnarandstöðunnar um að sniðganga forsetakosningar sem fara fram þann 22. apríl næstkomandi í Venesúela tilkynnti Henri Falcón, formaður Avanza Progresista, um framboð sitt í gær. Verður hann því eini frambjóðandi flokks sem á sæti á þingi fyrir utan sitjandi forseta, Nicolas Maduro.

Afstaða stjórnarandstöðunnar var tekin á þeim grundvelli að með sniðgöngu væri hægt að einangra Maduro. Var bandalag stjórnarandstöðuflokka því harðort í garð Falcón á Twitter í gær. „Með þessu skrefi hefur Henri Falcón yfirgefið bandalagið og lýðræðishugsjón venesúelsku þjóðarinnar. Við getum ekki stutt við sviksamlegt kosningakerfi á þennan hátt.“

Ýmislegt við komandi kosningar hefur vakið reiði stjórnarandstöðunnar. Tveir vinsælustu stjórnarandstæðingarnir, Leopoldo Lopez og Henrique Capriles, fá til að mynda ekki að bjóða sig fram. Lopez er í stofufangelsi, sakaður um að kynda undir ofbeldi í mótmælum árið 2014. Capriles er hins vegar meinað að bjóða sig fram til nokkurs embættis vegna meintra embættisbrota sem eiga að hafa átt sér stað þegar hann var ríkisstjóri. Báðir hafa þeir neitað sök og sagt málin pólitísks eðlis.

Vilji stjórnarandstæðingar bjóða sig fram til forseta mega þeir aukinheldur ekki bjóða fram undir nafni flokks síns. Þá er stjórnarandstaðan ósátt við að engar breytingar hafi verið gerðar á Maduro-sinnaðri kjörstjórn og að hundruðum þúsunda venesúelskra ríkisborgara, búsettra erlendis, sé meinað að kjósa.

Í könnun sem birtist 8. febrúar mældist stjórnarandstæðingurinn Henry Ramos, sem býður sig ekki fram, með 7 prósenta fylgi samanborið við 32 prósent Maduro og 11 prósent Falcón. Degi fyrr birtist könnun frá Hercon sem sýndi Ramos með 38 prósenta fylgi, Maduro með 20 prósent og Falcón 31 prósent. Tveimur dögum fyrir það mældist Ramos svo með 9 prósent, Maduro 18 prósent og Falcón var vinsælastur með 24 prósent.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×