Fótbolti

Fólk má koma með eiturlyf inn á HM leikvanga í Rússlandi í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Velkomin til Rússlands.
Velkomin til Rússlands. Vísir/Samsett mynd/Getty
Fólk alls staðar af úr heiminum mun fjölmenna til Rússlands í sumar og styðja við bakið á sínum landsliðum á heimsmeistaramótinu í fótbolta. Íslendingar eru þar engin undantekning enda Ísland með í fyrsta sinn.

Rússar í samvinnu við Alþjóðaknattspyrnusambandið setja mikinn kraft í öll öryggismál tengdum heimsmeistaramótinu og áhorfendur á leikjunum þurfa meðal annars að fara í gegnum ströng öryggishlið á leið sinni á völlinn.

FIFA passar líka upp á að enginn komist upp með eitthvað miðabrask tengdum leikjunum á HM og þá aðstoða sérsambönd þátttökuþjóðanna með eftirlit með miðahöfum.

Vegna alls þessa vekja nýjustu fréttir frá Rússlandi talsverða athygli en þær voru teknar upp í ólíkum erlendum miðlum eins og Sports Illustrated, Newsweek og Washington Times auk fjölda annarra miðla víðsvegar um heiminn.







Samkvæmt frétt í rússnesku blöðunum Izvestia og The Moscow Times þá mega áhorfendur á leikjum HM í sumar nefnilega koma með eiturlyf inn á HM leikvangana í Rússlandi ef þeir uppfylla ákveðin skilyrði.

Í Rússlandi eru ákvæði sem leyfa fólki að koma með annars óleyfileg efni til landsins en aðeins ef ferðafólkið er með uppáskrift frá lækni og hún þarf þá að vera á rússnesku.

Marijúana, kókaín og heróin eru meðal þeirra hundrað efna sem eru á listanum yfir efni sem ferðafólkið getur gefið upp ef það þarf samkvæmt læknisráði að hafa slík efni eða lyf meðferðis.





Ef fólk kemst með eiturlyfin á annaðborð löglega inn til Rússland þá leyfir FIFA þeim síðan að koma með þau inn á leikvanganna. „Öryggisverðir munu fylgja eftir og viðurkenna reglurnar sem leyfa fólki með þartilgerð leyfi að koma með þessi lyf inn á vellina,“ segir í yfirlýsingu frá skipulagsnefnd HM til The Moscow Times.

Það fylgir þó sögunni að efnin þurfa að vera í upprunanlegu pakkingunum og á umræddum pakkningum útskýringar á rússnesku eða ensku.

Það er þó ekki líklegt að fólkið megi nota þessi efni á leikvöngunum takist þeim á annaðborð að koma efnunum inn. Reglur FIFA  gefa öryggisvörðum fyrirmæli um að fjarlægja þá áhorfendur sem skapa hættu vegna neyslu á áfengi eða eiturlyfjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×