Erlent

Byssumaðurinn handtekinn eftir sólarhringsleit

Kristín Ólafsdóttir skrifar
James Eric Davis yngri er grunaður um að hafa myrt foreldra sína.
James Eric Davis yngri er grunaður um að hafa myrt foreldra sína. Vísir/AFP
Lögregla í Michigan-ríki í Bandaríkjunum hefur handtekið karlmann sem grunaður er um að hafa skotið foreldra sína til bana á heimavist Central Michigan-háskólans í gær. Lögregla leitaði árásarmannsins í sólarhring.

Lögregla hafði hendur í hári hins 19 ára James Eric Davis Jr. eftir að ábending barst frá farþega í lest sem átti leið í gegnum svæðið við háskólann, að því er fram kemur í frétt Reuters.

Davis Jr. er grunaður um að hafa skotið foreldra sína, þau James Eric Davis eldri og Diva Davis, til bana á fjórðu hæð Campbell Hall-heimavistarinnar í gærmorgun að bandarískum tíma.

Þingmaðurinn Emanuel Chris Welch birti mynd af Davis eldri, sem hafði starfað sem lögreglumaður, og vottaði aðstandendum hjónanna samúð sína. Í tístinu sagði að Davis-hjónin hefðu verið til heimilis í grennd við Chicago-borg í Illinois-ríki.

Í frétt BBC kom fram að lögreglan hafði einhver afskipti af James Eric yngri kvöldið fyrir árásina og var hann í kjölfarið lagður inn á sjúkrahús. Innlögnin er talin hafa tengst fíkniefnum. Hann útskrifaðist af sjúkrahúsinu nokkrum klukkustundum fyrir skotárásina en foreldrar hans voru á heimavistinni í gær að sækja hann þar sem vorfrí nemenda var að hefjast.

Byssur eru ekki leyfðar á skólasvæðinu og fékk almenningur á svæðinu þau tilmæli að halda sig innandyra á meðan byssumannsins var leitað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×