Erlent

Þrír látnir í Ástralíu vegna listeríusýkingar

Þórdís Valsdóttir skrifar
Sýkingin er rakin til melónuframleiðanda í New South Wales.
Sýkingin er rakin til melónuframleiðanda í New South Wales. Vísir/getty
Listeríusýking í melónum af tegundunni tröllaepli hefur orðið þremur að bana í Ástralíu. Þá hafa fimmtán gamalmenni smitast af sýkingunni en sýkingin er rakin til melónuræktanda í New South Wales fylki í Ástralíu. BBC greinir frá

Fólk í áhættuhópum er varað við því að borða slíkar melónur, þar á meðal eru gamalmenni, ófrískar konur og ung börn. 

„Fólk sem er berskjaldað fyrir listeríusýkingum ætti að henda öllum kantalópum sem keyptar voru fyrir 1. mars,“ sagði Vicky Sheppeard hjá forstöðumaður stofnunar smitsjúkdóma í fylkinu. Búið er að fjarlægja þessa tegund af melónum úr verslunum í Ástralíu.

Bakteríuna Listeria monocytogenes er að finna víða í náttúrunni og finnst hjá fjölda dýrategunda. Bakterían smitast með matvælum sem ýmist hafa verið menguð frá upphafi eða mengast hefur í framleiðsluferli. 

Listería getur borist út í blóðið og valdið blóðsýkingu en hún sækir einnig í miðtaugakerfið og leiðir í þeim tilfellum til heilahimnubólgu. Einkennin geta í upphafi verið mismikil og lýst sér sem vanþrif og léleg matarlyst hjá nýfæddum börnum. Einkennin geta líka verið bráð með hita, höfuðverk, ógleði, uppköstum og alvarlegu blóðþrýstingsfalli. 

Hjá fóstrum sem sýkjast í móðurkviði getur sýkingin breiðst út til margra líffæra og fylgja því afar slæmar horfur. Barnshafandi konur eru gjarnan einkennalausar eða með vægan hita en þrátt fyrir það getur sýkingin leitt til fyrirburafæðingar eða fósturláts. Þetta kemur fram á heimasíðu embættis Landlæknis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×