Fótbolti

Nýjasta ofurliðið í Kína niðurlægt í fyrstu umferð

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Dalian Yifang
Dalian Yifang vísir/getty
Dalian Yifang eru nýliðar í kínversku ofurdeildinni og hugðust mæta í deildina með miklum trukki þar sem liðið fjárfesti í þremur leikmönnum sem hafa getið sér gott orð í evrópskum fótbolta skömmu áður en mótið hófst.

Yannick Carrasco, Nico Gaitan og Jose Fonte gengu nefnilega í raðir félagsins á dögunum og þeir voru allir í byrjunarliðinu þegar liðið heimsótti Shanghai SIPG í fyrstu umferð deildarinnar í gær. 

Skemmst er frá því að segja að þrátt fyrir að tefla fram þessum þremur ofurstjörnum fengu nýliðarnir skell þar sem Shanghai SIPG vann 8-0 sigur þar sem Brasilíumennirnir Oscar og Hulk fóru mikinn en Oscar gerði þrennu og Hulk skoraði eitt mark.

Carrasco og Gaitan leiddu sóknarlínu Dalian Yifang og léku allan leikinn á meðan Fonte hóf leik í hjarta varnarinnar en var skipt af velli eftir 81 mínútu. Þeir tveir fyrrnefndu yfirgáfu Atletico Madrid til að leika í Kína en Fonte hefur leikið með Southampton og West Ham í ensku úrvalsdeildinni undanfarin ár.

Dalian Yifang borgaði tæplega 30 milljónir punda fyrir Carrasco en þessi belgíski kantmaður var orðaður við lið á borð við Manchester United, Tottenham og Chelsea áður en hann ákvað að færa sig um set til Kína. Samningur hans við Dalian Yifang er talinn færa kappanum tæpar 10 milljónir punda í árslaun




Fleiri fréttir

Sjá meira


×