Erlent

Rúmlega 17 þúsund milljarðar til kínverska hersins

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kínverjar eru nú þegar með stærsta herafla heims og munu á næstu árum leggja allt kapp á að nútímavæða vopnabúr hans.
Kínverjar eru nú þegar með stærsta herafla heims og munu á næstu árum leggja allt kapp á að nútímavæða vopnabúr hans. Vísir/Getty
Kínverjar munu verja 1,1 billjón júönum, eða um 17.559 milljörðum íslenskra króna, í hernaðarmál á næsta ári. Forsætiráðherra Kína tilkynnti um upphæðina, sem er um 8 prósenta aukning til málaflokksins frá síðasta ári, í ræðu sinni frammi fyrir kínverska þinginu í Peking.

Forsætisráðherrann, Li Keqiang, tilkynnti einnig að stefnan væri sett á 6,5 prósenta hagvöxt á árinu.

Kínverski kommúnistaflokkurinn lagði nýlega til að fella úr gildi ákvæði í stjórnarskrá landsins sem takmarkar setu einstaklings á forsetastóli við tvö fimm ára kjörtímabil. Xi Jinping, forseti Kína, myndi því geta haldið embætti sínu eins lengi og hann hefur heilstu til.

Þrátt fyrir að tillagan sé umdeild er ekki gert ráð fyrir öðru en að hún verði samþykkt, ef marka má fagnaðarlæti þingmanna í morgun þegar tillagan var formlega lesin upp í þingsalnum. Verði hún að veruleika mun Xi óumdeilanlega vera merkasti leiðtogi Kínverja síðan Mao Tse-tung var og hét.

Xi Jinping, sem er fæddur árið 1953, er sonur eins stofnenda Kínverska kommúnistaflokksins. Staða hans í Kína er gífurlega sterk en undir lok október í fyrra voru stefna hans og hugsjónir festar í lög Kommúnistaflokksins.


Tengdar fréttir

Forsetinn geti setið lengur en tvö tímabil

Xi Jingping getur setið lengur á stóli forseta en til ársins 2023 verði breytingar á stjórnarskrá landsins samþykktar. Flestir telja það aðeins formsatriði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×