Enski boltinn

Wenger gæti orðið næsti knattspyrnustjóri Gylfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson gæti spilað fyrir Arsene Wenger á næstu leiktíð.
Gylfi Þór Sigurðsson gæti spilað fyrir Arsene Wenger á næstu leiktíð. Vísir/Getty
Dagar Arsene Wenger hjá Arsenal virðast vera taldir þótt franski stjórinn þrjóskist enn við í stjórastólnum á Emirates. Samkvæmt nýjustu sögusögnum frá Englandi þá verður Wenger ekki lengi atvinnulaus verði hann rekinn frá Arsenal.

Daily Star slær því upp að stór klúbbur í ensku úrvalsdeildinni hafi mikinn áhuga á því að semja við Arsene Wenger. Sá klúbbur er Everton þar sem menn vilja ólmir koma sínu liði í hóp þeirra bestu á nýjan leik.





Wenger hefur gert frábæra hluti á tveimur áratugum með Arsenal en árangurinn síðustu ár hefur verið stuðningsmönnum félagsins mikið hugarangur.

Arsenal tapaði sínum fjórða leik í röð um helgina og þótt að Wenger ætli sér að halda áfram þá verður að teljast líklegt að Arsenal endi 22 ára stjóratíð hans í sumar.

Sam Allardyce er heldur ekki að gera góða hluti með Gylfa Þór Sigurðsson og félaga í Everton og það er nokkuð ljóst að þeir á Goodison Park muni leita sér að nýjum stjóra í sumar.

Allardyce kom til Everton á miðju tímabili og tókst að rífa liðið upp úr fallbaráttunni en varnfærnislegur leikur liðsins að undanförnu og lélegt gengi kallar á nýjan mann í brúna.

Þar er nafn Arsene Wenger upp á borði hjá eigandanum Farhad Moshiri. Moshiri átti á sínum tíma fimmtán prósenta hlut í Arsenal og þekkir því vel til Arsene Wenger og starfa hans.





Samkvæmt frétt Daily Star þá er Farhad Moshiri sannfærður um að Arsene Wenger geti rifið Everton upp úr öldudalnum á næstu tímabilum.

Þessi frétt er meðal slúðurfréttanna sem ESPN safnaði saman upp úr ensku miðlunum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×