Enski boltinn

Wenger gæti orðið næsti knattspyrnustjóri Gylfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson gæti spilað fyrir Arsene Wenger á næstu leiktíð.
Gylfi Þór Sigurðsson gæti spilað fyrir Arsene Wenger á næstu leiktíð. Vísir/Getty

Dagar Arsene Wenger hjá Arsenal virðast vera taldir þótt franski stjórinn þrjóskist enn við í stjórastólnum á Emirates. Samkvæmt nýjustu sögusögnum frá Englandi þá verður Wenger ekki lengi atvinnulaus verði hann rekinn frá Arsenal.

Daily Star slær því upp að stór klúbbur í ensku úrvalsdeildinni hafi mikinn áhuga á því að semja við Arsene Wenger. Sá klúbbur er Everton þar sem menn vilja ólmir koma sínu liði í hóp þeirra bestu á nýjan leik.Wenger hefur gert frábæra hluti á tveimur áratugum með Arsenal en árangurinn síðustu ár hefur verið stuðningsmönnum félagsins mikið hugarangur.

Arsenal tapaði sínum fjórða leik í röð um helgina og þótt að Wenger ætli sér að halda áfram þá verður að teljast líklegt að Arsenal endi 22 ára stjóratíð hans í sumar.

Sam Allardyce er heldur ekki að gera góða hluti með Gylfa Þór Sigurðsson og félaga í Everton og það er nokkuð ljóst að þeir á Goodison Park muni leita sér að nýjum stjóra í sumar.

Allardyce kom til Everton á miðju tímabili og tókst að rífa liðið upp úr fallbaráttunni en varnfærnislegur leikur liðsins að undanförnu og lélegt gengi kallar á nýjan mann í brúna.

Þar er nafn Arsene Wenger upp á borði hjá eigandanum Farhad Moshiri. Moshiri átti á sínum tíma fimmtán prósenta hlut í Arsenal og þekkir því vel til Arsene Wenger og starfa hans.Samkvæmt frétt Daily Star þá er Farhad Moshiri sannfærður um að Arsene Wenger geti rifið Everton upp úr öldudalnum á næstu tímabilum.

Þessi frétt er meðal slúðurfréttanna sem ESPN safnaði saman upp úr ensku miðlunum í gær.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.