Erlent

Skripal og dóttir hans urðu fyrir taugaeitri

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar standa vörð við heimili Skripal.
Lögregluþjónar standa vörð við heimili Skripal. Vísir/AFP

Fyrrverandi rússneski njósnarinn Sergei Skripal og dóttir hans urðu fyrir taugaeitri samkvæmt lögreglu og liggja þau þungt haldin á gjörgæslu. Þau fundust meðvitundarlaus á bekk fyrir utan verslunarmiðstöð á sunnudaginn. Talið er að um árás hafi verið að ræða og er málið rannsakað sem morðtilraun. Tveir lögregluþjónar og sjúkraflutningamaður urðu einnig fyrir áhrifum efnisins. Annar lögregluþjónninn er í alvarlegu ástandi.

Lögreglan hefur ekki gefið upp um hvers konar taugaeitur sé að ræða.

Vísir/GraphicNews

Sergei Skripal var fangelsaður í Rússlandi árið 2006 fyrir að hafa útvegað leyniþjónustu Bretlands nöfn útsendara Rússa í Evrópu. Hann var frelsaður árið 2010 þegar Bandaríkin og Rússland skiptust á njósnurum sem höfðu verið handsamaðir. Rússar slepptu fjórum njósnurum og Bandaríkin tíu.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem eitur er byrlað fyrir Rússneskum aðila í Bretlandi og gruna yfirvöld Bretlands þegar að yfirvöld Rússlands hafi komið að árásinni. Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, gaf í skyn í gær að England myndi mögulega ekki taka þátt í HM í Rússlandi í sumar vegna málsins.

Sjá einnig: Senda Rússum tóninn vegna undarlegra veikinda njósnara

Samkvæmt umfjöllun Guardian er lögreglan í Bretlandi meðal annars að rannsaka hver framkvæmdi árásina, hvort meira sé af taugaeitri í Bretlandi og hvaðan það kom.

Efnavopnasérfræðingar segja Guardian að nánast sé ómögulegt að framleiða taugaeitur án mikillar þekkingar og þjálfunar. Þar að auki þurfi sérstakan búnað.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.