Fótbolti

Opnaði markareikninginn sinn í sama landi og mamma hennar lokaði sínum fyrir 23 árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlín Eiríksdóttir í leik með íslenska landsliðinu á Algarve.
Hlín Eiríksdóttir í leik með íslenska landsliðinu á Algarve. Vísir/Getty

Hlín Eiríksdóttir skoraði í gær sitt fyrsta mark fyrir A-landslið kvenna þegar hún tryggði stelpunum okkar 1-1 jafntefli á móti Danmörku í Algarve mótinu í Portúgal.

Hlín skoraði markið sitt með skalla eftir hornspyrnu frá Hallberu Guðnýju Gísladóttur en þær verða samherjar hjá Val í Pepsi-deild kvenna í sumar.

Hlín Eiríksdóttir varð þar með sú fyrsta aldamótabarnið til að skora fyrir íslenskt A-landslið en hún er fædd árið 2000.

Móðir Hlínar, Guðrún Sæmundsdóttir, var líka frábær knattspyrnukona og skoraði 4 mörk í 36 landsleikjum á sínum tíma.

Síðasta landsliðsmarkið skoraði Guðrún með skoti beint úr aukaspyrnu í leik á móti Portúgal í Portúgal 15. júní 1995. Íslenska liðið varð samt að sætta sig við 2-1 tap.

Svo skemmtilega vill til að Hlín opnaði einnig markareikninginn með landsliðinu í Portúgal í gær en hún lék sinn fyrsta landsleik fyrr á þessu ári.

Guðrún Sæmundsdóttir skoraði sitt fyrsta A-landsliðsmark árið 1987 þegar hún var tvítug en Hlín er fædd 12. júní árið 2000 og verður því ekki átján ára fyrr en í sumar.

Fyrsta mark Guðrúnar kom í hennar áttunda landsleik hennar en Hlín lék sinn fimmta landsleik á móti Danmörku í gær.

Guðrún opnaði markareikning sinn með landsliðinu í leik á móti Þýskalandi 6. september 1987. Sá leikur var spilaður úti í Þýskalandi. Guðrún skoraði það mark líka beint úr aukaspyrnu og af um 27 metra færi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.