Fótbolti

Opnaði markareikninginn sinn í sama landi og mamma hennar lokaði sínum fyrir 23 árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlín Eiríksdóttir í leik með íslenska landsliðinu á Algarve.
Hlín Eiríksdóttir í leik með íslenska landsliðinu á Algarve. Vísir/Getty
Hlín Eiríksdóttir skoraði í gær sitt fyrsta mark fyrir A-landslið kvenna þegar hún tryggði stelpunum okkar 1-1 jafntefli á móti Danmörku í Algarve mótinu í Portúgal.

Hlín skoraði markið sitt með skalla eftir hornspyrnu frá Hallberu Guðnýju Gísladóttur en þær verða samherjar hjá Val í Pepsi-deild kvenna í sumar.

Hlín Eiríksdóttir varð þar með sú fyrsta aldamótabarnið til að skora fyrir íslenskt A-landslið en hún er fædd árið 2000.

Móðir Hlínar, Guðrún Sæmundsdóttir, var líka frábær knattspyrnukona og skoraði 4 mörk í 36 landsleikjum á sínum tíma.

Síðasta landsliðsmarkið skoraði Guðrún með skoti beint úr aukaspyrnu í leik á móti Portúgal í Portúgal 15. júní 1995. Íslenska liðið varð samt að sætta sig við 2-1 tap.

Svo skemmtilega vill til að Hlín opnaði einnig markareikninginn með landsliðinu í Portúgal í gær en hún lék sinn fyrsta landsleik fyrr á þessu ári.

Guðrún Sæmundsdóttir skoraði sitt fyrsta A-landsliðsmark árið 1987 þegar hún var tvítug en Hlín er fædd 12. júní árið 2000 og verður því ekki átján ára fyrr en í sumar.

Fyrsta mark Guðrúnar kom í hennar áttunda landsleik hennar en Hlín lék sinn fimmta landsleik á móti Danmörku í gær.

Guðrún opnaði markareikning sinn með landsliðinu í leik á móti Þýskalandi 6. september 1987. Sá leikur var spilaður úti í Þýskalandi. Guðrún skoraði það mark líka beint úr aukaspyrnu og af um 27 metra færi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×