Erlent

Biðja Bandaríkin að koma í veg fyrir flutninga Kúrda til Afrin

Kúrdar hafa tilkynnt að sóknin gegn ISIS verður stöðvuð og að um 1.700 meðlimir YPG muni ferðast til Afrin og berjast gegn innrásinni.
Kúrdar hafa tilkynnt að sóknin gegn ISIS verður stöðvuð og að um 1.700 meðlimir YPG muni ferðast til Afrin og berjast gegn innrásinni. Vísir/AFP

Ríkisstjórn Tyrklands hefur beðið yfirvöld Bandaríkjanna að koma í veg fyrir að hersveitir Kúrda í Sýrlandi, YPG, færi hermenn frá austurhluta landsins, þar sem þeir hafa barist gegn vígamönnum Íslamska ríkisins, til Afrinhéraðs. Þar hafa Tyrkir gert innrás með stuðningi uppreisnarhópa sem þeir hafa stutt gegn ríkisstjórn Bashar al-Assad, forseta Sýrlands.

Kúrdar hafa tilkynnt að sóknin gegn ISIS verður stöðvuð og að um 1.700 meðlimir YPG muni ferðast til Afrin og berjast gegn innrásinni. Sveitir hliðhollar Assad, sem studdar eru af Íran, taka einnig þátt í vörninni í Afrin.

Sjá einnig: Assad-liðar á leið til Afrin

Sýrlenskir Kúrdar hafa stjórnaði héraðinu um langt skeið en yfirvöld Tyrklands hafa sakað þá um að vera hryðjuverkamenn og vera hliðholla Verkamannaflokki Kúrda í Tyrklandi, PKK, sem hefur háð áratugalanga og blóðuga frelsisbaráttu þar í landi.

Ibrahim Kalin, talsmaður Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, segir að ríkisstjórn landsins búist við því að Bandaríkin verði við ósk þeirra og segir það vera eðlileg réttindi Tyrkja. Samkvæmt frétt New York Times hafa Bandaríkin ekki svarað beiðni Tyrkja þrátt fyrir að beiðnin hafi verið lögð fram í gær.

Í austurhluta landsins berjast regnhlífarsamtökin Syrian Democratic Forces, SDF, gegn Íslamska ríkinu og hafa þau tekið stjórn á stórum hluta Sýrlands með stuðningi Bandaríkjanna. Að mestu eru SDF skipuð af hermönnum Kúrda en margar aðrar fylkingar araba og fleiri samfélagshópa berjast einnig með samtökunum. Um mikið högg er því að ræða fyrir baráttuna gegn ISIS. Bandaríkin hafa frá því að innrás Tyrkja hófst, haldið því fram að þeir séu bandamenn SDF en tengist YPG ekki.

Sameinuðu þjóðirnar hafa gagnrýnt aðgerðir Tyrkja í Afrin og segja marga almenna borgara hafa fallið í árásunum og að tugir þúsunda hafi þurft að yfirgefa heimili sín.
 


Tengdar fréttir

Tyrkir hyggjast sækja að Írak

Tyrkneski herinn er tilbúinn til þess að sækja alla leið austur að landamærum Sýrlands og Íraks í aðgerðum sínum gegn YPG, hersveitum Kúrda. Þetta sagði Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, í gær. Ítrekaði hann að næst myndu Tyrkir taka borgina Manbij.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.