Enski boltinn

Guardiola sektaður um tæpar þrjár milljónir

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Pep Guardiola með gulu slaufuna.
Pep Guardiola með gulu slaufuna. Vísir/Getty
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hefur verið sektaður af enska knattspyrnusambandinu fyrir að bera gula slaufu í bikarleik City og Wigan á dögunum.

Knattspyrnusambandið ákærði Guardiola fyrir að vera með borðann eftir að hann hafði fengið tvær formlegar viðvaranir. Á mánudag ákvað Spánverjinn að sætta sig við ákæruna og mótmæla henni ekki og hann hefur nú verið sektaður um 20 þúsund pund, sem eru þæpar þrjár milljónir íslenskra króna.

Guardiola ver slaufuna til stuðnings stjórnmálamanna sem sitja í fangelsi í heimalandinu fyrir sjálfstæðisbaráttu Katalóna. Reglur enska knattspyrnusambandsins banna stjórum þar í landi að bera nokkuð sem telst getur til pólitísks áróðurs á hliðarlínunni.

Spánverjinn var ekki með slaufuna á meðan viðureign City og Chelsea stóð á sunnudaginn, en setti hana upp fyrir blaðamannafund sinn eftir leikinn, enda er það aðeins á hliðarlínunni sem menn mega ekki bera pólitísk merki. Hann mun þó halda áfram að bera slaufuna í leikjum City í Meistaradeild Evrópu þar sem UEFA er ekki með neinar reglur sem þessar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×