Handbolti

Karen Knúts: Verð ekki ég sjálf fyrr en á næsta tímabili

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Karen Knútsdóttir er komin aftur á handboltavöllinn eftir að hafa slitið hásin í Meistarakeppni HSÍ í upphafi leiktíðarinnar.

„Þetta er búið að ganga vonum framar hjá mér,“ sagði Karen í viðtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Þetta var mjög skrítinn tími. Flutti heim og ætlaði mér stærri hluti en að slíta í fyrsta leik, en þetta er búið að líða ágætlega hratt og ég á góða að sem hjálpuðu mér.“

Karen hefur tekið þátt í síðustu fjórum leikjum Fram í Olís deild kvenna og skoraði 3 mörk í sigrinum á Gróttu í síðustu umferð.

„Mér var sagt þetta tæki sex mánuði, í dag eru liðnir fimm og hálfur svo ég hef getað spilað á undan áætlun. Ég held samt ég verði ekki ég sjálf fyrr en á næsta tímabili.“

Fram mætir Val á sunnudaginn í toppslag í Olís deildinni og verður leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 frá 17:50.

Viðtal Gaupa við Karen má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×