Erlent

Auknar öryggisráðstafanir vegna mótmæla á Ítalíu

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Til átaka kom á milli mótmælenda og óeirðalögreglunnar á Ítalíu í dag.
Til átaka kom á milli mótmælenda og óeirðalögreglunnar á Ítalíu í dag. visir/afp
Yfirvöld á Ítalíu hafa stóreflt löggæslu í borgum vegna vaxandi hörku í mótmælum þar í landi. Ríkisstjórnin hefur kallað út þúsundir lögreglumanna til að standa vaktina á mótmælum auk þess sem óeirðalögreglan hefur verið kölluð til að því er fram kemur á vef BBC.

Þjóðernissinnar, sem staðsetja sig yst til hægri á hinu pólitíska litrófi, annars vegar og andfasistar hins vegar hafa blásið til mótmæla sem fara fram í dag í Róm, Mílanó og Palermó.

Yfirvöld gera ráð fyrir að allt að tuttugu þúsund manns fjölmenni á mótmælin sem hingað til hafa einkennst mjög af hörðum átökum á milli hópanna tveggja. Loft er lævi blandið á Ítalíu þegar skammur tími er til þingkosninga en Ítalir ganga til kosninga þann 4. mars.

Andfasistar mótmæla Norðurbandalaginu þegar örstutt er til þingkosninga á Ítalíu.visir/afp
Til átaka kom á milli andfasista og óeirðalögreglunnar í Mílanó í dag á mótmælum sem beinast gegn stjórnmálaflokknum Norðurbandalaginu sem þekktur er fyrir harða stefnu í innflytjendamálum. Óeirðalögreglan girti af svæði og beitti kylfum.

Fyrrverandi forsætisráðherra landsins, Matteo Renzi, hefur boðað komu sína á mótmælin sem fara fram í höfuðborginni í dag en hann mun flytja ræðu undir yfirskriftinni „aldrei aftur fasismi“.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×