Innlent

Alexander vinsælast á höfuðborgarsvæðinu en Baltasar á Norðurlandi vestra

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Flestir karlar á Íslandi heita Jón, Guðmundur eða Sigurður en algengustu nöfn kvenna eru Guðrún, Anna eða Kristín, óháð fæðingarstað.
Flestir karlar á Íslandi heita Jón, Guðmundur eða Sigurður en algengustu nöfn kvenna eru Guðrún, Anna eða Kristín, óháð fæðingarstað. Vísir/Getty
Líklegast er að drengir sem fæddust árið 2016 heiti Alexander ef þeir fæddust á höfuðborgarsvæðinu en Baltasar á Norðurlandi vestra. Þetta er meðal þess sem kemur út í Hagtíðindum Hagstofunnar.

Mestar líkur eru á að börn 10 ára og yngri eigi afmæli í júlí, ágúst eða september. Þeir sem fæddust fyrir 50 árum eiga flestir afmæli á tímabilinu frá mars til október og eru jafnar líkur á að afmæli þeirra sé í einhverjum af þeim mánuðum.

Þar segir einnig að tvöfalt meiri líkur séu á að karlar beri sama eiginnafn og feður þeirra (11%) en að konur séu nefndar eftir mæðrum sínum (5%). Karlar eru hins vegar einungis 5% líklegri til að vera nefndir eftir afa sínum en konur til að bera nafn ömmu sinnar. Þá eru konur á aldrinum 18–30 ára (2%) eru tvisvar sinnum líklegri til að nota nafn móður sinnar sem kenninafn en konur á aldrinum 31–50 ára (1%).

Líkurnar á því að karlar 20 ára og yngri beri móðurnafn sem kenninafn eru 1,2% en einungis 0,6% hjá körlum á aldrinum 35–50 ára.

Mun meiri líkur eru á að fólk noti ættarnafn föður (um 70%) en móður (15%). Líkurnar á að bera ættarnafn eru 3,8% hjá einstaklingum 50 ára og eldri en 3,2% hjá þeim sem yngri eru.

Þrisvar sinnum fleiri heita Blöndal en Berndsen eða Norðdahl og tvisvar sinnum fleiri heita Blöndal, Thorarensen eða Hansen en Briem, Thorlacius eða Jensen.

Flestir Íslendingar heita Jón eða Guðrún

Flestir karlar á Íslandi heita Jón, Guðmundur eða Sigurður en algengustu nöfn kvenna eru Guðrún, Anna eða Kristín, óháð fæðingarstað.

Líklegast er að stúlkur sem fæddust árið 2016 heiti Emilía eða Íris ef þær eru fæddar á Austurlandi; Birta, Karítas eða Sunna á Norðurlandi eystra; Emma á Norðurlandi vestra, Auður á Vestfjörðum, Hanna á Suðurnesjum, Sara á höfuðborgarsvæðinu og Kristín eða Rakel ef þær eru fæddar á Suðurlandi.

Líklegast er að drengir sem fæddust árið 2016 heiti Alexander ef þeir hafa fæðst á höfuðborgarsvæðinu, Austurlandi eða á Suðurnesjum, Aron á Vesturlandi eða Norðurlandi eystra, Arnar á Suðurlandi, Baltasar og Arnór á Norðurlandi vestra en Haukur, Sigurður eða Tristan hafi þeir fæðst á Vestfjörðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×