Handbolti

Dómarafarsinn í Safamýri: „Kjánalegt að vita ekki hvaða leikmaður á að fá rautt“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Birkir Hálfdánsson, leikmaður Fram í Olís-deild karla í handbolta, fékk rautt spjald fyrir litlar sakir í leik liðsins gegn Val á sunnudagskvöldið.

Bjarni Viggósson, annari dómari leiksins, byrjaði á því að reka rangan mann af velli en Sigurður Örn Þorsteinsson, sem var ekki inn á þegar brotið átti sér stað, fékk reisupassann áður en Valsmenn bentu á réttan mann.

„Best finnst mér að Valsararnir bentu dómurunum á því að gefa Arnari Birki rautt. Eru þeir farnir að ráða því hver er rekinn út úr húsinu?“ sagði Gunnar Berg Viktorsson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar á Stöð 2 Sport HD í gærkvöldi.

„Það er út í hött að vita ekki hverjum á að gefa rautt. Það er bara kjánalegt,“ bætti Sigfús Sigurðsson við.

„Þetta var ekki rautt spjald. Það er alveg deginum ljósara. Við getum bara byrjað þar,“ sagði Gunnar Berg.

Leikurinn var mjög harður og höfðu dómararnir lítil sem engin tök á leiknum er gróf brot byrjuðu að líta dagsins ljós hjá báðum liðum. Þrátt fyrir að menn væru togaðir niður í loftinu og aðrir barðir í andlitið var eina rauða spjaldið í leiknum það sem Arnar Birkir fékk.

„Dómararnir verða að setja línu þannig að menn séu ekki að ráðast á mótherjann. Menn eiga að vera grimmir og taka á hvorum öðrum en um leið og er verið að kýla menn í andlitið eða að taka þá niður í loftinu þarf að taka í taumana,“ sagði Gunnar Berg Viktorsson.

Alla umræðuna má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×