Viðskipti innlent

Evrópski fjárfestingarbankinn lánar Isavia 100 milljónir evra til uppbyggingar í Keflavík

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia og Andrew McDowell aðstoðarframkvæmdastjóri Evrópska fjárfestingarbankans skrifuðu undir lánasamninginn á skrifstofu sendinefndar  ESB á Íslandi í Aðalstræti í morgun.
Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia og Andrew McDowell aðstoðarframkvæmdastjóri Evrópska fjárfestingarbankans skrifuðu undir lánasamninginn á skrifstofu sendinefndar ESB á Íslandi í Aðalstræti í morgun. Vísir/ÞÞ
Fjárfestingarbanki Evrópu mun lána Isavia 100 milljónir evra, jafnvirði 12,5 milljarða króna, til endurnýjunar á núverandi mannvirkjum og afkastaaukningar á Keflavíkurflugvelli. 

Lánasamningurinn var undirritaður í morgun á skrifstofu sendinefndar Evrópusambandsins á Íslandi í Aðalstræti en Evrópski fjárfestingarbankinn eru í eigu aðildarríkja sambandsins. Bankinn fjármagnar fjárfestingar til lengri tíma í ESB-ríkjum og EFTA-ríkjunum. Lánveitingin nemur 100 milljónum evra, jafnvirði 12,5 milljarða króna.

Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia segir að þessi lánveiting sé ekki bara stórtíðindi fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi heldur einnig staðfesting á þeim góða árangri sem náðst hefur í íslensku efnahagslífi á undanförnum árum.

„Fyrir mig er þetta endanlegur stimpill um það hvert við erum komin í íslensku efnahagslífi,“ segir Björn Óli. 

Evrópski fjárfestingarbankinn hafði viðskiptaáætlanir Isavia og spár um áframhaldandi vöxt ferðaþjónustunnar til hliðsjónar þegar ákvörðun um lán var tekin. Lánskjörin eru ekki gefin upp en Björn Óli segir að þau séu mjög góð og almennt betri en Isavia hefði fengið á almennum markaði.

„Þegar við sóttum um lánið settum við fram röð af verkefnum sem við höfum unnið að á tímabilinu. Fjármunirnir verða nýttir í verkefni í Keflavík. Næsta stóra verkefnið okkar er tengibyggingin á milli norður- og suðurbyggingarinnar í Leifsstöð. Við munum örugglega nota þetta fé þar og í önnur verkefni sem við erum með í gangi í tengslum við flugstöðina,“ segir Björn Óli. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×