Innlent

Lögregla biður eigendur breyttra ökutækja að haga sér

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Björgunarsveitarmenn stóðu vaktina á Hellisheiði í dag og gera enn.
Björgunarsveitarmenn stóðu vaktina á Hellisheiði í dag og gera enn. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Veður á landinu hefur verið afar slæmt og fer versnandi, með tilheyrandi lokunum á vegum víða um land. Lögregla biður eigendur breyttra ökutækja, sem ekki hefur verið hleypt um vegina, að láta óánægju sína ekki dynja á björgunarsveitarmönnum.

Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem send var út á sjötta tímanum í dag, er ítrekað að Hellisheiði, Mosfellsheiði, Lyngdalsheiði og Kjósaskarðsvegi hafi verið lokað vegna veðurs. Þessi svæði eru vinnusvæði viðbragðsaðila og lokuð fyrir allri umferð. Enn er þó opið um Suðurstrandarveg og Þrengsli.

Sjá einnig: Svæðisstjórn virkjuð í Árnessýslu og stefnt að opnun fjöldahjálparstöðvar



Þá beinir lögregla sérstökum fyrirmælum til ökumanna vel búinna bifreiða. Í tilkynningu segir að töluvert hafi verið um að eigendur breyttra ökutækja reyni að komast leiðar sinnar, þrátt fyrir lokanir, en „láti síðan óánægju sína dynja á björgunarsveitarmönnum.“

Lögregla biður þessa ökumenn því að virða lokanir og störf viðbragðsaðila.

„Þetta er algerlega óþolandi framkoma og því biðjum við ökumenn að virða lokanir, og sérstaklega að virða störf björgunarsveita við þessar erfiðu aðstæður,“ segir í tilkynningu.

Eins og greint hefur verið frá í dag hefur aftakaveður verið víða á landinu. Svæðisstjórn hefur verið virkjuð í Árnessýslu vegna fjölda ökutækja sem sitja föst á Hellisheiði, Lyngdalsheiði og Mosfellsheiði. Fjöldahjálparstöð hefur verið opnuð á Selfossi.

Þá varð þriggja bíla árekstur á Hellisheiði í dag en meiðsli á fólki eru ekki alvarleg.


Tengdar fréttir

Vegum lokað víða um land vegna veðurs

Veður er afar slæmt á landinu í dag og búist er við ofsaveðri á Suðausturlandi. Búið er að loka fyrir umferð um Hellisheiði, Mosfellsheiði, Holtavörðuheiði og Lyngdalsheiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×