Enski boltinn

Martraðarmet féllu á Drekavellinum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Porto steinlá á heimavelli gegn Liverpool í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gærkvöld.

Leikmenn Liverpool léku lausum hala og buðu upp á flugeldasýningu í 0-5 sigri. Úrslitin voru söguleg á marga vegu, en enga þeirra sérstaklega skemmtilega fyrir portúgalska liðið.

Þetta var stærsta tap Porto á heimavelli í Evrópukeppni frá upphafi og jafnframt í fyrsta skipti sem liðið hefur fengið á sig meira en þrjú mörk í Evrópuleik.

Áður hafði stærsta heimatapið verið gegn Real Madrid, 1-3 tap í október 2003.

Þá jafnaði sigur Liverpool stærsta útisigur í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar. Áður hafði Bayern Munich sigrað annað portúgalskt lið, Sporting, 0-5 árið 2009 og Real Madrid sigraði með sömu markatölu gegn þýska liðinu Schalke í febrúar 2014.

Ekki er öll von þó úti fyrir Porto því þeirra stærsti útisigur í Evrópukeppni var 8-1 sigur og því fordæmi í sögunni fyrir sigri sem gæti komið þeim áfram í 8-liða úrslitin. Sá leikur var hins vegar árið 1990 gegn norður-írska félaginu Portadown. Mjög ólíklegt er að liðið nái álíka úrslitum gegn sjóðheitu Liverpool-liði á Anfield.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×