Umfjöllun og viðtöl: Fram 28-23 Víkingur | Vandræði Víkinga halda áfram

Viktor Örn Guðmundsson skrifar
Viktor Gísli var öflugur í kvöld
Viktor Gísli var öflugur í kvöld
Annar leikur í 18.umferð karla fór fram í kvöld þegar heimamenn í Fram mættu Víking í botnslag Olís deildar karla. Fyrri hálfleikurinn var jafn á flestum tölum en aðra sögu var að segja í þeim síðari þar sem heimamenn riðu á vaðið og unnu mikilvægan og sanngjarnan sigur 28-23, þeirra fyrsti í deild síðan 22.október einmitt gegn Víkingum.

Gestirnir úr Fossvoginum byrjuðu þennan leik betur og leiddu á fyrstu tölum leiksins. Þeir léku með tómt mark er þeir voru í sókn og hjálpaði það þeim að finna glufur á vörn Framara. Framarar komust svo hægt og bítandi yfir og var munurinn mestur 7-5 um miðjan hálfleik. Liðin skiptust svo á að taka forystu og lauk fyrri hálfleik með 1 marks forystu Fram, 12-11 í hálfleik sem einkenndist svolítið af töpuðum boltum.

Framarar byrjuðu seinni hálfleikinn miklu betur og var munurinn orðinn 4 mörk, 17-13 þegar 10 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik, heimamenn virtust eflast við þetta á meðan gestirnir brotnuðu og misstu þeir sinn helsta markaskorara Egidijus Mikalonis útaf vegna meiðsla. Framarar juku forskot sitt jafnt og þétt og  mestur var munurinn sjö mörk þegar lítið var eftir og lokatölur 28-23, sanngjarn sigur Fram staðreynd.

Afhverju vann Fram leikinn?

Seinni hálfleikur skóp þennan sigur Framara, það tók þá smá tíma að finna svör við sóknarleik Víkings og þegar seinni hálfleikur hófst virtist Guðmundur vera búinn að kortleggja Víkingana og gengu Framarar á lagið, Víkingar virtust brotna þegar Mikalonis fór útaf meiddur og var breidd þeirra einfaldlega ekki nógu stór til að standa í hárinu á Frömurum.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Varnaleikur Fram heilt yfir var öflugur sem og Viktor Gísli í markinu, Andri Þór Helgason og Þorsteinn Gauti voru einnig mjög öflugir í markaskorun Framara, í liði gestanna var fátt um fína drætti, Viktor Alex kom sterkur inn á í mark Víkinga.

 

Hvað gekk illa?

Fyrri hálfleikurinn einkenndist svolítið af töpuðum boltum og misheppnuðum skotum og hélt það áfram í seinni hálfleik, hvorki Arnar Birkir né Mikalonis voru að skjóta vel og gekk illa hjá Víkingum að brjóta sér leið fram hjá sterkri vörn heimamanna.

 

Hvað gerist næst?

Víkingar fara á einn erfiðasta útivöll landsins, Ásvelli og verða þeir einfaldlega að vinna til að eiga möguleika á því að spila í Olís deildinni á næsta tímabili.

Framarar fara á Seltjarnanesið og mæta þar heimamönnum í Gróttu í risastórum leik sem getur skorið úr hvort liðið ætlar sér að blanda sér í umspilssæti.

 

Gunnar Gunnarsson: Þetta er ennþá tölfræðilega möguleiki
Gunnar Gunnarsson þjálfar Víkingvísir/eyþór
„Þetta er ennþá tölfræðilega möguleiki en þetta lýtur alls ekki vel út.” Sagði Gunnar Gunnarsson þjálfari Víkinga spurður út í möguleika þeirra um sæti í deild þeirra bestu á næsta tímabili.

 

„Ég er samt sem áður ánægður með sumt í okkar leik, það var allt annað að sjá baráttuna og viljann, fyrri hálfleikurinn var mjög góður varnalega, og við vorum agaðir sóknarlega. Í seinni missum við aðeins dampinn og þeir skora nokkur í tómt markið og við fórum að taka rangar ákvarðanir.” Gríðalegur munur var á milli hálfleika hjá Víkingsliðinu og hrundu þeir sérstaklega eftir að Mikalonis fer út af meiddur.

 

„Við byrjum seinni hálfleikinn illa en það er klárt að hann(Mikalonis)er mikilvægur leikmaður hjá okkur og hópurinn er ekki rosalega breiður en það komu ungir og efnilegir strákar inná sem stóðu sig ágætlega.”

 

Víkingar spiluðu 7 á 6 sóknarleik sem þýðir að mark þeirra er tómt þegar þeir sækja, það gekk vel hjá þeim í fyrri hálfleik en Fram virtist vera búið að finna svör við þessu í þeim síðari.

 

„Þetta einfaldar okkur að fá opnanir og eins og þetta var í fyrri hálfleik þá gekk þetta fínt þangað til í seinni hálfleik þannig ég hugsa að við prufum að keyra þetta kerfi áfram.” Sagði Gunnar Gunnarsson í samtali við Vísi í kvöld.

 

Guðmundur Helgi Pálsson: Gríðarlega stoltur af strákunum
Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram.Vísir/Anton
„Þolinmæði fyrst og fremst,” var lykilinn að sigrinum samkvæmt þjálfara Fram, Guðmundi Helga Pálssyni.

 

„Þeir spila mjög agað 7 á 6 allan tímann og við vorum í erfiðleikum að ná því í fyrri hálfleik, vörnin var samt góð í dag og Viktor frábær í markinu, að gefast ekki upp og halda áfram var það sem skóp þetta, við hættum aldrei og það var erfitt að gíra sig upp andlega í þennan leik en ég er gríðarlega stoltur af strákunum að hafa klárað þetta.”

Framarar hafa ekki unnið deildarleik síðan í 7.umferð og þá gegn Víkingum í fossvoginum, og átta leikja taphrinu þeirra loksins lokið.

 

„Mér fannst við bregðast ágætlega við nýja leikerfinu þeirra, mér fannst þó vanta meira upp á hraðaraupphlaup hjá okkur, varnalega var þetta allt í lagi, við fáum á okkur 23 mörk en það vantaði þetta litla uppá, og hefðum við náð hraðaraupphlaupunum þá hefðum við slitið þá frá okkur aðeins fyrr.”

 

Fram spilar mikilvægan leik í næstu umferð, leik sem þeir eiga inni en þar heimsækja þeir Gróttu. Bæði liðin unnu sína leiki í kvöld og því leikurinn ennþá mikilvægari í barráttunni um umspilssæti.

 

„Leikurinn leggst mjög vel í mig, við erum að æfa mjög vel og strákarnir eru í fínu formi og þetta er okkar tími.” Sagði Guðmundur að lokum við íþróttadeild Vísis.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira