Erlent

Hakakrossar á pólska sendiráðinu í Ísrael

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglan hefur hafið rannsókn á veggjakrotinu.
Lögreglan hefur hafið rannsókn á veggjakrotinu. Vísir/EPA
Þegar starfsmenn pólska sendiráðsins í Tel Aviv mættu til vinnu í morgun ráku þeir augun í hakakrossa sem búið var að að teikna á hlið sendiráðsins.

Við nánari athugun kom í ljós að orðið „morðingi“ hafði einnig verið ritað á vegg byggingarinnar. Ísraelska lögreglan hefur hafið rannsókn á málinu en talið er að veggjakrotið tengist ummælum sem forsætisráðherra Póllands, Mateusz Morawiecki, lét falla í gær.

Þá sagði Morawiecki að gyðingar hefðu verið meðal gerenda í útrýmingarherferð Nasista gegn gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni. Ummæli hans hafa verið harðlega gagnrýnd af samfélögum gyðinga um víða veröld, ekki síst í Ísrael þar sem forsætisráðherrann, Benjamín Netanyahu, hefur farið fremstur í flokki.

Sjá einnig: Forsætisráðherra Póllands segir gyðinga hafa verið meðal gerenda í helförinni

Morawiecki hefur síðan þá útskýrt ummæli sín og sagt að hann hafi ekki ætlað sér að kenna gyðingum um hina þýskættuðu Helför.

Ummælin helltu olíu á eldinni sem kviknaði eftir að pólska þingið samþykkti frumvarp sem gerir það ólöglegt að saka pólska ríkið eða pólsku þjóðina um að hafa tekið þátt í glæpum Nasista.

Hin nýju lög hafa vakið mikla reiði yfirvalda í Ísrael, Netanyahu segir að þau séu tilraun til að endurskrifa söguna og afneita Helförinni. Ísraelskir ráðamenn ætla í kjölfarið að taka til endurskoðunar lög Ísraels um afneitun við Helförinni. Ef frumvarpið nær fram að ganga gætu þeir sem afneita eða gera lítið úr hlut þeirra sem aðstoðuðu Nasista við útrýmingu gyðinga, þurft að sæta fangelsi í allt að fimm ár.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×