Viðskipti innlent

Bankasýslan leggur til sölu á eignarhlut ríkisins í Arion banka

Kjartan Kjartansson skrifar
Ríkið fær 23,4 milljarða króna fyrir 13% eignarhlut sinn í Arion banka.
Ríkið fær 23,4 milljarða króna fyrir 13% eignarhlut sinn í Arion banka. Vísir/Stefán
Ríkið ætti að selja 13% eignarhlut sinn í Arion banka til Kaupskila ehf. samkvæmt tillögu Bankasýslu ríkisins til fjármálaráðherra. Bankasýslan telur að Kaupskil hafi ótvíræðan og fortakslausan samningsbundinn rétt til að kaupa hlutinn.

Kaupskil er dótturfélag Kaupþings. Félagið virkjaði kauprétt sinn í síðustu viku og sendi Bankasýslunni, sem fer með hlutinn fyrir hönd ríkisins, erindi þess efni. Bankaskýslan skilaði Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, tillögu sinni í dag.

Í tilkynningu á vefsíðu sinni vísar Bankasýslan í hluthafasamkomulag frá árinu 2009 sem gefi Kaupskilum „einhliða, ótvíræðan og  fortakslausan“ samningsbundinn rétt til að kaupa hlut ríkisins í Arion banka.

Stofnunin hafi yfirfarið útreikning á kaupréttarverðinu og fengið staðfestingu endurskoðunarfyrirtækisins Grant Thornton á því. Niðurstaðan sé að kaupréttarverð, miðað við uppgjör þann 21. febrúar nk., sé  23.422.585.119 kr. sem sé sama verð og birtist í tilkynningu Kaupskila ehf. um nýtingu kaupréttarins.

Í hluthafasamkomulaginu kom fram hvernig kaupréttarverðið skyldi reiknað út. Undirliggjandi forsendur voru að ríkissjóður skyldi ávaxta upphaflegt hlutafjárframlag sitt til bankans miðað við tiltekna vexti, 5% áhættuálag og árafjölda.

Bjarni sagði í síðustu viku að 23,4 milljarðar króna fyrir eignarhlutinn væru viðunandi ávöxtun á því fé sem ríkið setti inn í bankann þegar hann var fjármagnaður eftir hrun árið 2009.


Tengdar fréttir

Bjarni segir verð fyrir hlut í Arion banka fela í sér viðunandi ávöxtun

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir að 23,4 milljarðar króna fyrir 13 prósenta hlut ríkisins í Arion banka sé viðunandi ávöxtun á því fé sem ríkið setti inn í bankann við fjármögnun hans árið 2009. Kaupskil, dótturfélag Kaupþings, hefur virkjað kauprétt á hlutnum og fundaði ráðherranefnd um efnahagsmál um málið síðdegis í dag.

Ætla að nýta kauprétt á hlut ríkisins í Arion banka

Kaupskil, dótturfélag Kaupþings ehf, hefur tilkynnt Bankasýslu ríkisins um að félagið hyggist nýta sér kauprétt á kauprétt á þrettán prósent hlut ríkisins í Arion banka hf. Kaupverðið er 23,4 milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×