Innlent

Elín Sigríður og Inga Kristín hlutu Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands

Atli Ísleifsson skrifar
Verðlaunahafarnir ásamt Guðna Th. Jóhannessyni forseta.
Verðlaunahafarnir ásamt Guðna Th. Jóhannessyni forseta. Rannís
Elín Sigríður Harðardóttir og Inga Kristín Guðlaugsdóttir, nemendur í grunnnámi vöruhönnunar við Listaháskóla Íslands, hlutu Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands fyrr í dag. Þær hlutu verðlaunin fyrir verkefnið Lúpína í nýju ljósi, lífrænt hráefni í umhverfisvæna afurð.

Í tilkynningu frá Rannís kemur fram að leiðbeinendur þeirra hafi verið þeir Magnús H. Jóhannsson, sviðsstjóri þróunarsviðs Landgræðslu ríkisins, og Thomas Pausz, lektor við Listaháskóla Íslands.

„Í verðlaunaverkefninu voru kannaðir eiginleikar og styrkleikar lúpínunnar sem hráefnis. Markmið rannsóknarinnar var að komast að því hvort hægt væri að vinna efni úr lúpínu án allra íblöndunarefna, sem væri þá algjörlega niðurbrjótanlegt í náttúrunni. Efni sem væri nýtanlegt í einhverskonar áframhaldandi framleiðslu.

Megintilraunirnar í verkefninu voru að pressa plötur úr rótum og stönglum plöntunnar og gera samanburð á afurðunum, annars vegar á plöntuhlutum og hins vegar á mismunandi vaxtarskeiði hennar. Sýnishorn voru unnin með það að markmiði að gera styrkleikaprófanir svo hægt væri að kanna styrk efnisins og áætla hvort og þá hvar hægt væri að staðsetja það í flokki byggingarefna, miðað við þá vinnsluaðferð sem notuð var í rannsókninni. Gerð voru beygjubrotþolspróf og metin orkuþörf við framleiðslu á efninu. Að auki voru gerðar tilraunir með aðra plöntuhluta, s.s. blómin.

Náttúrutrefjar eru hráefni sem vonir eru bundnar við í þróun á umhverfisvænum efnum, hráefni sem gæti komið í stað plasts og gerviefna sem hafa verið notuð undanfarna áratugi og stofna náttúrunni í hættu. Alaskalúpína er belgjurt sem hefur mikinn lífmassa og finnst víða í náttúru Íslands. Hún er áhugaverð vegna eiginleika sinna til að framleiða nitur, þannig sér hún sjálfri sér fyrir næringu og er þar af leiðandi sjálfbær þegar hún hefur fest rætur. Plantan hefur nær eingöngu verið notuð sem uppgræðslujurt.

Stofnuð var vefsíða sem fjallar um verkefnið á myndrænan hátt. Vefslóð hennar er www.lupineproject.com.

Frá afhendingu verðlaunanna á Bessastöðum fyrr í dag.Rannís
Fjögur önnur verkefni fengu sérstaka viðurkenningu:

Notkun hágæðaloftmynda frá flygildum við vistfræðirannsóknir Verkefnið var unnið af Benedikt Traustasyni og Hlyni Steinssyni, BS-nemum í líffræði við Háskóla Íslands, í samstarfi við sprotafyrirtækið Svarma ehf. Leiðbeinendur voru Kristín Svavarsdóttir plöntuvistfræðingur, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, og Victor Madrigal sérfræðingur í fjarkönnun.

Reikningar á brothættu beina hjá sjúklingum sem eru að gangast undir heildar mjaðmaskiptaaðgerð Verkefnið var unnið af Gunnari Hákoni Karlssyni og Halldóri Ásgeiri Risten Svanssyni, nemum í heilbrigðisverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Leiðbeinendur voru Paolo Gargiulo, dósent við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, Magnús Kjartan Gíslason, lektor við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, Kyle Edmunds, aðjúnkt við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, Halldór Jónsson Jr., prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og bæklunarlæknir við Landspítala háskólasjúkrahús.

Trippi – Tveir ótamdir hönnuðir kanna nýtingarmöguleika íslenskra hrosshúða Verkefnið var unnið af fatahönnuðinum Kristínu Karlsdóttur og vöruhönnuðinum Valdísi Steinarsdóttur. Þær eru báðar nýútskrifaðar frá Listaháskóla Íslands. Umsjónarmenn verkefnisins voru Linda Björg Árnadóttir, lektor í fatahönnun við Listaháskóla Íslands, og Rúna Thors, fagstjóri í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands.

Þróun nýstárlegra vefjaræktunarkerfa til rannsókna á öndunarfærum og til lyfjarannsókna Verkefnið var unnið af Gabriel Sölva Windels, BSc nema í heilbrigðisverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Aðalleiðbeinandi var Jennifer Ann Kricker, PhD og verkefnisstjóri læknadeildar Háskóla Íslands, og þar voru Sævar Ingþórsson frumulíffræðingur ásamt Ara Jóni Arasyni, PhD og verkefnisstjóra við Rannsóknarstofnun í stofnfrumufræðum, meðleiðbeinendur. Verkefnið var unnið á Rannsóknarstofu í stofnfrumufræðum við Lífvísindasetur Háskóla Íslands þar sem Þórarinn Guðjónsson hafði umsjón með verkefninu.

Verðlaunin í ár

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands eru veitt árlega þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefnis sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið áður. Verðlaunin voru fyrst veitt 1996 og eru því nú veitt í tuttugasta og þriðja sinn.

Verðlaunin í ár eru ljósin Ból eftir leirlistarkonuna Kristbjörgu Guðmundsdóttur,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×