Skoðun

Hækka þarf lægstu laun háskólamenntaðra með varanlegum aðgerðum

Maríanna Hugrún Helgadóttir skrifar
Það er almenn krafa Félags íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) að samningsaðilar setji saman vegvísi til að þróa einn vinnumarkað á Íslandi. FÍN telur mikilvægt almennt að jákvæð kaupmáttarþróun ráðstöfunartekna eigi sér stað hjá félagsmönnum FÍN á samningstíma kjarasamninga. Markmið FÍN í kjaraviðræðum við ríkið er að laun og önnur kjör hjá hinu opinbera séu samkeppnishæf og að menntun sé metin til launa. Launasetning er mismunandi á stofnum ríkisins og leiðrétta þarf lægstu laun okkar félagsmanna þannig að þau verði ekki lakari en 400 þ.kr. hjá þeim sem eru fyrstu háskólagráðu. Slík aðgerð verður að vera varanleg og því fer félagið fram á að launaflokkar undir 400 þ.kr. verð klipptir af launatöflunni og launataflan síkkuð. Menntun þarf að meta til launa og því er mikilvægt að ákvæði gerðardóms um mat á menntun haldi sér, þannig að lágmarkslaun þeirra sem eru með mastersgráðu eða doktorsgráðu sem nýtist í starfi sé eigi lakari en 400 þ.kr. að viðbættu menntunarálagi gerðardóms.

Brýnasta verkefnið framundan er að leiðrétta laun félagsmanna okkar þar sem breytingar voru gerðar á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna 1. júní 2017. Leiðrétta þarf laun milli opinbera markaðarins og hins almenna sbr. 7. gr. um jöfnun launa í samkomulagi aðila vegna breytinga á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Því er mikilvægt að launatölfræði sé til staðar sem byggir á raunverulegum gögnum allra launamanna í landinu sem er kerfislega safnað saman.

Samkvæmt úttekt FÍN á launakjörum okkar félagsmanna á stofnunum ríkisins þá er mikill launamunur milli stofnana sé horft til meðaltal mánaðarlauna vegna dagvinnu. Horfa þarf til framtíðar með launakerfi háskólamanna með það að markmiði að það sé gegnsætt og skilvirkt. Setja þarf inn ákvæði í miðlæga kjarasamninga um starfslýsingar, starfsmannasamtöl, launaviðtöl og launablöð. Stéttarfélög, samstarfsnefndir og trúnaðarmenn verða að hafa aðgang að launaupplýsingum félagsmanna sinna og samsetningu þeirra til að geta fylgt eftir framkvæmd stofnanasamninga.

Gera þarf samningsferlið virkara hvað varðar stofnanasamninga og koma í veg fyrir að aðgerðarleysi eitt og sér komi í veg fyrir endurskoðun þeirra. Félagið krefst þess að friðarskylda verði afnumin vegna viðræðna um stofnanasamninga við stofnanir ríkisins.

Fjölskylduvænn vinnumarkaður er að mati félagsins samfélagslega mikilvægur og því leggur félagið til að vinnuvikan sé stytt án breytinga á launum, færri vinnustundir en sömu laun. Þess má geta að á Íslandi eru vinnuvikan lengst sé borin saman fjöldi vinnustunda á ári milli Norðurlandanna, sbr. grein Whitney Leach á vef World Economic Forum frá 16. janúar 2018.

Höfundur er formaður félags íslenskra náttúrufræðinga.




Skoðun

Sjá meira


×