Umfjöllun og viðtöl: ÍR - Þór Þ. 68-70 | Þórsarar héldu út gegn ÍR

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Matthías Orri Sigurðarson, leikmaður ÍR.
Matthías Orri Sigurðarson, leikmaður ÍR. vísir/ernir
Þór Þorlákshöfn mætti í Hertz hellirinn í Seljaskóla og tók tvö stig af toppliði ÍR-inga í leik sem endaði á hörkuspennandi lokasekúndum.

Gestirnir frá Þorlákshöfn virtust mæta tilbúnari til leiks frá upphafi. Þeir neyddu ÍR-inga í flautuþrist á skotklukku strax í fyrstu sókn og settu þannig tóninn fyrir leikinn. Þeir reyndar skoruðu ekki í fyrstu sókninni sinni heldur og það gaf enn frekari merki um hvernig leikurinn átti eftir að spilast.

ÍR-ingarnir voru klárlega ekki eins og maður hefur vanist þeim í vetur, spurning hvort stórtapið gegn Stjörnunni í síðustu umferð hafi setið eftir í þeim. En þeir voru líka einstaklega óheppnir. Það verður ekki tekið af Þórsurum að þeir spiluðu mjög flotta vörn og gerðu heimamönnum erfitt fyrir, en öll skotin sem hoppuðu af hringnum duttu út en ekki ofan í hringinn hjá ÍR-ingum og þar fram eftir götunum. 


Þórsörum tókst ekki mikið betur í sínum sóknaraðgerðum, en skotin þeirra duttu þó mun oftar ofan í. Þeir voru með fjögurra stiga forskot eftir fyrsta leikhlutann og náðu að stækka það í níu stig fyrir leikhléið.

Þriðji leikhlutinn var í raun meira af því sama en ÍR-ingar mættu loksins af alvöru til leiks og náðu að komast yfir þegar lítið var eftir af leiknum. Síðustu tvær mínúturnar voru svo hörku spennandi, bæði lið áttu séns á því að taka sigurinn en svo fór í lokinn að Þórsarar fóru með tveggja stiga sigur 68-70.

Afhverju vann Þór?

ÍR-ingar virtust andlausir og mættu ekki almennilega til leiks. Hins vegar voru Þórsarar að spila hörku vörn og hefðu í raun getað verið löngu búnir að klára leikinn ef þeir hefðu náð að hitta aðeins betur.

Leikskipulagið hjá Einari Árna Jóhannssyni gekk frábærlega upp, þeir náðu að loka virkilega vel á helstu sóknarógnir ÍR, Matthías Orra Sigurðarson og Ryan Taylor.

Hverjir stóðu upp úr?

Ólafur Helgi Jónsson átti virkilega flottan leik og hann var stigahæstur í liði Þórsara. Þá var innkoma Chaz Williams af bekknum mjög góð og Davíð Arnar Ágústsson átti sterkan leik fyrir Þór að vanda.

Hjá ÍR var það helst Hákon Örn Hjálmarsson sem náði ágætum leik, áðurnefndir Taylor og Matthías stóðu þó fyrir sínu.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur. Hjá báðum liðum. ÍR-ingum gekk illa í sókninni bæði vegna flottrar varnar Þórsara en líka vegna þess að þeir voru að gera alls konar tæknimistök hér og þar. Þórsarar voru ekki mikið betri þegar kom að því að tapa boltanum, en skotin þeirra duttu þó aðeins betur en hjá ÍR-ingum. Þeir voru þó langt frá því sem á að venjast af þriggja stiga skotliði eins og Þórsarar hafa oftast verið.

Hvað gerist næst?

Það er stutt í næstu leiki. ÍR á leik gegn Val á útivelli mánudaginn 12. febrúar og Þórsarar taka á móti öðru af liðunum í toppbaráttunni, Tindastól á sunnudaginn.

Einar Árni Jóhannsson.Vísir/Ernir
Einar Árni: Ekki góður sóknarleikur sem vann þetta í dag

„Þetta var hörku leikur og þetta ÍR lið er búið að sýna ótrúlegan styrk á sínum heimavelli. Við vissum að þeir kæmu með áhlaup en þetta var kannski óþarflega mikið og ég er ánægður með hvernig við kláruðum þetta,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs, eftir leikinn.

„Stóra vandamálið okkar í dag var að við vorum ekki að setja niður opin þriggja stiga skot. Við hefðum átt að vera búnir að klára þennan leik fyrir löngu. En ég er ánægður með varnarleikinn og að menn skyldu klára þetta.“

„Það er auðvelt að brotna á móti sterku liði á heimavelli sem þarf virkilega á sigur að halda. Sérstaklega í stöðu eins og þessari þar sem þeir náðu að jafna og komust yfir eftir að við vorum 16,17 stigum yfir. En við vorum sterkir á taugunum og kláruðum þetta vel,“ sagði Einar.

Þórsararnir voru yfir nærri allan leikinn, oftast með í kringum tíu stiga forystu, og áttu því sigurinn fyllilega skilið í kvöld.

„Mér fannst við vera betra liðið í dag, mættum tilbúnir og vorum þéttir fyrir. Við náðum stóru stoppunum þegar við þurftum á þeim að halda, það er alveg klárt að það var ekki góður sóknarleikur sem vann þetta fyrir okkur í dag.“

„Þeir náðu sér ekki á strik en ég ætla að gefa mínum mönnum kretit fyrir það að við vorum að spila virkilega vel,“ sagði Einar Árni Jóhannsson.

Borce Ilievski, þjálfari ÍR.Vísir/Ernir
Borche: Dómararnir vilja ekki sjá villurnar

„Þetta var ekki góður leikur hjá okkur,“ sagði Borche Ilievski eftir tap sinna manna.

Borche var mjög ósáttur með dómara leiksins og fannst þeir ekki vernda leikmenn sína nógu vel, þá sérstaklega Ryan Taylor.

„Fyrstu tvær villurnar snemma leiks á Ryan og tæknivillan sprengdu allt leikskipulag sem við vorum með. Ég reyndi að vernda hann fyrir villunum í seinni hálfleik en hann fékk aðra villu fljótlega eftir að hann kom inn á. Mér finnst hann ekki fá þá meðferð sem hann á skilið og Þórsararnir voru of grófir á hann.“

„Dómararnir voru að dæma villur sem voru ekki villur og dæma ekki þegar það er brotið. Ég er ekki að gagnrýna andstæðinginn og hvernig þeir spiluðu, þetta var líklega leikskipulagið hjá þeim, en dómararnir eru hér til þess að vernda leikmennina. Kannski sáu þeir ekki brotin eða þeir voru að reyna að sjá þau ekki. En ég get ekki grátið yfir þessu, fyrst og fremst spiluðum við illa.“

ÍR-ingar voru frekar andlausir í leiknum og tók Borche undir það

„Við eigum við mörg vandamál að stríða, sérstaklega tæknilega séð. Við spiluðum allt í lagi vörn, en ég sé helling af mistökum þar. Við þurfum að skoða leikina vel og læra af þessum mistökum.“

„Fyrst og fremst eru það þessar þrjár villur á Ryan sem tapa leiknum fyrir okkur. Ég get verið sammála tæknivillunni, en fyrstu tvær voru ekki villur,“ sagði Borche Ilievski.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira