Enski boltinn

Luis Enrique vill komast í enska boltann og langlíklegast er að hann taki við Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Enrique vann titla með Barcelona.
Luis Enrique vann titla með Barcelona. Vísir/Getty
Orðrómurinn um að Luis Enrique sé að verða knattspyrnustjóri Chelsea í næstu framtíð verður alltaf háværari og háværari.

Antonio Conte er enn stjóri Chelsea en menn eru farnir að telja niður dagana í stjóratíð hans eftir einstaklega slakt gengi liðsins að undanförnu. Framtíð Conte er ráðin að mati flestra og í raun aðeins spurning um það hvort Ítalinn klárar tímabilið eða ekki.

Þriggja marka töp á móti Bournemouth og Watford hafa sett mikla pressu á breytingar í stjórastól Chelsea strax þó að Roman Abramovich vildi helst ekki breyta um stjóra fyrr en í sumar.

Telegraph fjallar um málið í dag og slær því upp að Luis Enrique sé efstur á blaði hjá Chelsea.

Blaðið fékk þó ekki staðfestingu á því úr herbúðum Luis Enrique að hann hafi gert munnlegt samkomulag við Chelsea en því var slegið upp í spænskum fjölmiðlum.





Enrique hefur stýrt Barcelona og Celta Vigo á Spáni og Roma á Ítalíu. Það sem blaðamaður Telegraph fékk að vita er Enrique vill komast að hjá ensku félagi og fá tækifæri til að reyna sig á móti þeim Pep Guardiola og Jose Mourinho í ensku úrvalsdeildinni.

Luis Enrique er án starfs eftir að hann hætti með Barcelona-liðið eftir þrjú ár. Hann er ekki spenntur fyrir því að taka við Chelsea á miðju tímabili og ekki síst vegna þess að margir af hans uppáhaldsaðstoðarmönnum eru fastir hjá Celta.

Það er líka möguleiki á því að Luis Enrique endi sem eftirmaður Arsene Wenger hjá Arsenal en mestar líkur eru á því að hann fari til Chelsea.

Í frétt Telegraph eru einnig vangaveltur um það að Roman Abramovich fái Guus Hiddink til að stýra Chelsea út tímabilið ákveði hann að reka Conte. Luis Enrique gæti síðan tekið við í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×