Mounie með tvö í sigri Huddersfield

Dagur Lárusson skrifar
Steve Mounie fagnar fyrra marki sínu.
Steve Mounie fagnar fyrra marki sínu. vísir/getty
Steve Mounie skoraði tvö mörk í sigri Huddersfield á Bournemouth í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Liðsmenn Huddersfield byrjuðu heldur betur með látum en þeir náðu forystunni strax á 7. mínútu með marki frá Alex Pritchard sem kom til liðsins frá Norwich í janúar.

Það tók þó gestina ekki langan tíma að jafna metin því á 14. mínútu fékk Junior Stanislas boltann í teig Huddersfield og lagði hann boltann snyrtilega í netið framhjá Lössl.

Eftir þetta mark tóku liðsmenn Huddersfield öll völdin á vellinum og sköpuðu sér mikið af færum. Á 27. mínútu skoraði síðan Steve Mounie fyrir Huddersfield og sá til þess að sitt lið færi með forystuna í leikhlé.

Í seinni hálfleiknum hélt Huddersfield völdum sínum á vellinum og skoraði Steve Mounie sitt annað mark á 66. mínútu.

Það var síðan í uppbótartíma þar sem Huddersfield skoraði sitt fjórða mark en það kom af vítapunktinum og þar var á ferðinni Van La Parra sem vildi ekki leyfa Steve Mounie að fara á punktinn og fullkomna þrennu sína.

Lokatölur 4-1 og eftir leikinn er Huddersfield í 16. sæti með 27 stig á meðan Bournemouth er í 10. sæti með 31 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira