Handbolti

HSÍ fundaði með Geir en vill einnig ræða við Guðmund

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Geir Sveinsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, fundaði með forystu handknattleikssambandsins í gær um framtíð sína.

Samningur Geirs við sambandið er útrunninn og er framhaldið óljóst. Geir vildi ekki tjá sig um málið við íþróttadeild að fundi loknum og ekki náðist í formann sambandsins.

Geir Sveinsson kom frá Þýskalandi í gær þar sem hann er búsettur til að funda með HSÍ í gær. Til umræðu á fundinum var frammistaða íslenska liðsins á EM í Króatíu, en þar mistókst liðinu að komast í milliriðli eins og stefnt var að.

Geir sagðist í samtali við íþróttadeild ekki vilja veita viðtal um efni fundarins og ekki náðist í formann HSÍ þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í gær.

Ekki liggur því fyrir hvort frekara samstarf Geirs og HSÍ var rætt, en samkvæmt heimildum íþróttadeildar hefur HSÍ áhuga á að ræða við Geir og Guðmund Guðmundsson, sem þjálfar Barein í dag, um þjálfarastarfið.

Hvort Geir eða Guðmundur, eða hvorugur, hefur áhuga á starfinu mun koma í ljós en reiknað er með frekari fréttum af þjálfaramálum landsliðsins í næstu viku.

Guðmundur Guðmundsson vann silfur á Asíumótinu með Barein á dögunum en hann varð Ólympíumeistari með Danmörku í Ríó árið 2016. Hann hefur tvisvar sinnum áður þjálfað íslenska landsliðið með frábærum árangri.


Tengdar fréttir

Lokakafli Íslendinga á móti Serbum lítur nú enn verr út

Ísland klúðraði Evrópumótinu í Króatíu á skelfilegum lokakafla á móti Serbum og lokakafli Íslendinga í þessum leik á móti Serbum lítur nú enn verr út eftir mjög slaka frammistöðu Serbíu í milliriðlinum í Zagreb.

Guðmundur: Ævintýri frá upphafi til enda

Handboltaþjálfarinn Guðmundur Guðmundsson segir óvíst hvað taki við hjá sér nú þegar Asíumótinu í handbolta er lokið. Þar kom hann liði Barein í úrslitaleikinn þar sem liðið tapaði naumlega gegn Katar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×