Lífið

Meintar heróíngjafir Ryan Adams lögðust illa í söngvara The Strokes

Birgir Olgeirsson skrifar
Julian Casablanca
Julian Casablanca Vísir/EPA
Julian Cassablanca, söngvari bandarísku hljómsveitarinnar The Strokes, neitar því að hafa átt í einhverjum sérstökum útistöðum við tónlistarmanninn Ryan Adams.

Í bókinni Meet Me in The Bathroom er farið yfir sögu rokksenunnar í New York-borg á árunum 2001 til 2011.

Í henni er að finna viðtal við gítarleikara The Strokes, Albert Hammond, sem heldur því fram að Ryan Adams hafi gefið honum heróín og það hafi farið illa í Casablanca.

Albert HammondVísir/EPA
„Ég man að Julian hótaði að berja Ryan Adams ef hann myndi hanga með mér. Hann gerði það til að verja mig. Julian hafði heyrt af því að Ryan hefði verið að hitta mig og gefa mér heróín og hann sagði við hann: Ef þú kemur aftur í íbúðina mína með heróín, þá lem ég þig,“ sagði Hammond sem tók fram að Ryan Adams hefði vissulega verið slæmur félagsskapur.

Adams hefur neitað því að hafa boðið Hammond heróín. 

Casablanca var nýverið í viðtali við Beats 1 þar sem hann neitaði ekki beint þessari sögu en viðurkenndi þó ekki að hafa hótað Adams. Sagðist hann ekki muna nákvæmlega hvernig atburðarásin var en sagði heróín-notkun ekki koma til greina hjá sér.

Söngvarinn sagðist ekki hafa nokkurn áhuga á að upplifa fortíðina á ný og hafði engan áhuga á að eiga í einhverjum útistöðum, hvað þá við Ryan Adams. 

Ryan Adams.Vísir/Getty





Fleiri fréttir

Sjá meira


×